Faðir einn í Texas í Bandaríkjunum tók málin í eigin hendur þegar ítrekaðar kvartanir bárust vegna hegðunarvanda 17 ára sonar hans. Eðlisfræðikennarinn var búinn að fá upp í kok af piltinum, Brad, sem talaði og talaði meðan á kennslustundum stóð.
Faðirinn ákvað að bregða á það ráð að hóta því að koma með honum í skólann og sitja með honum í kennslustund ef önnur kvörtun myndi berast. Og það er einmitt það sem gerðist.
„Ég vinn ekki á föstudögum og þennan morgun vakti konan mín mig og sagði að nú þyrfti ég að drífa mig í skólann,“ segir faðirinn, sem einnig heitir Brad eins og sonurinn.
Faðirinn viðurkennir að hafa verið stressaður þegar hann mætti í skólann og var umkringdur unglingum. Hann viðurkennir þó að samnemendum sonarins hafi þótt þetta skemmtilegt.
Brad segir að vonandi hafi þetta kennt syni hans lexíu enda vilja nemendur almennt ekki hafa foreldra sína með sér í skólanum. Kveðst hann vona að hann þurfi ekki að mæta aftur með syni sínum í skólann.