Í upphafi bentu útreikningar stjörnufræðinga til þess að halastjarnan gæti verið upprunnin utan sólkerfisins og væri í fyrstu og síðustu ferð sinni í gegnum sólkerfið okkar. En frekari útreikningar leiddu í ljós að braut hennar er mjög sporöskjulaga en það gerir að verkum að hún kemur aðeins í innri hluta sólkerfisins á 430 ára fresti. Eftir það fer hún hring um sólina og aftur til Oort skýsins sem er stórt svæði með miklum fjölda halastjarna og annarra frosinna hluta fyrir utan sporbraut Neptúnusar.
Nishimura kom næst jörðinni þann 12. september en þá var hún í tæplega 125 milljóna kílómetra fjarlægð frá okkur en það er um 500 föld meðalfjarlægð tunglsins frá jörðinni. Þann 17. september var hún næst sólinni eða 33 milljónir kílómetra. Það getur verið banvænt fyrir halastjörnur að fara svo nálægt sólinni því hitinn og geislunin geta brotið þær upp í litla hluta. En Nishimura virðist hafa sloppið nær ósködduð frá þessu að sögn Spaceweather.com.