Þessari spurningu var varpað fram nýlega á vef Live Science. Þar var bent á að Bandaríkin hafi sent 12 geimfara til tunglsins á árunum 1969 til 1972. Þetta var hluti af Apollo geimferðaáætluninni sem var aðallega sett á laggirnar til að tryggja að Bandaríkin yrðu á undan Sovétríkjunum að senda menn til tunglsins en kalda stríðið stóð sem hæst á þessum tíma.
Núna beinast sjónir Bandaríkjamanna, Kínverja, Indverja og fleiri að suðurpól tunglsins sem vænlegum lendingarstað.
En af hverju suðurpóllinn? Martin Barstow, prófessor í stjarneðlisfræði, sagði í samtali við Live Science að ástæðan sé að vísindamenn telja að á suðurpólnum, sem er alltaf í skugga, sé mikið af frosnu vatni sem sé hægt að vinna, bæði til drykkjar og til að nota sem eldflaugaeldsneyti. Þess vegna sé mikilvægt að fara þangað til að kanna málið.
Rússar reyndu að lenda Luna 25 geimfarinu á suðurpólnum á þeim mikla merkisdegi 19. ágúst síðastliðnum en geimfarið brotlenti og myndaði 10 metra breiðan gíg á yfirborðinu.
Fjórum dögum síðar lenti indverska Chandrayaan 3 geimfarið þar. Með í för var bíll sem kannaði næsta nágrenni lendingarstaðarins og staðfesti að þar er brennisteinn en hann getur skipt miklu máli þegar kemur að því að reisa búðir á tunglinu. Bíllinn mældi einnig hita jarðvegsins með því að stinga hitamæli í hann og bíllinn nam líklega tunglskjálfta.
Kínverjar hyggast senda Chang‘e 7 geimfarið til suðurpólsins árið 2026. Það mun flytja bíl með sér og þyrlu sem á að leita að vatni á skuggasvæðum.
Síðar á þessum áratug hyggjast Bandaríkjamenn senda fólk til tunglsins og á það að dvelja þar í eina viku. Ætlunin er að byggja hús fyrir geimfara þar og eiga þeir að geta dvalið í því í tvo mánuði í einu með því að nýta auðlindir tunglsins, t.d. vatn.