Einn alræmdasti raðmorðingi sögunnar, Douglas Daniel Clark, er látinn, 75 ára að aldri. Clark hélt íbúum Los Angeles í heljargreipum á áttunda áratug síðustu aldar þegar hann myrti ungar konur, oft sem störfuðu í kynlífsiðnaðinum, með hrottalegum hætti ásamt kærustu sinni Carol Bundy. Voru þau kölluð „Sunset Strip“-morðingjarnir og vakti það sérstakan óhug hvernig að parið misþyrmdi líkum fórnarlambanna sem Clark notaði til þess að uppfylla viðurstyggilega kynlífsóra sína.
Talið er að Clark og Bundy hafi drepið um tylft ungra kvenna á tímabilinu júní til ágúst 1980 en þau hlutu aðeins dóm fyrir sex morð. Parið átti í sjúku ástarsambandi sem litað var af ofbeldi og fljótlega fór annað fólk að verða fyrir barðinu á þeim. Clark og Bundy lokkuðu til að mynda 11 ára gamla stúlku inn á heimili sitt og tóku af henni kynferðislegar myndir. Í kjölfarið viðurkenndi Clark fyrir Bundy að hann dreymdi um að drepa einhvern á meðan þau stunduðu kynlíf og það varð til þess að hún keypti handa honum tvær skammbyssur og þar með hófst morðaldan sem varði þó aðeins í nokkra mánuði.
Parið myrti fjölmargar ungar kynlífsverkakonur með því að kaupa af þeim þjónustu og fá þær til að taka þátt í sjúkum kynlífsleikjum þeirra. Svo myrti Clark þær og vanvirti líkin með ógeðfelldum hætti. Meðal annars geymdu þau höfuð eins fórnarlambsins í frysti og notuðu það í kynlífsleikjum sínum.
Að endingu náðu yfirvöld að hafa hendur í hári þeirra en það gerðist eftir að Bundy sagði samstarfsfólki sínu frá myrkraverkum parsins. Þá hafði hún meðal annars myrt fyrrum kærasta sinn, John Robert Murray.
Clark hlaut sexfaldan dauðadóm og hóf afplánun á dauðadeild í mars 1983. Þar endaði hann svo ævi sína. Bundy var dæmd í lífstíðarfangelsi en hún dó fyrir tveimur áratugum, árið 2003, þá 61 árs gömul.