Ísraelsk kona, Doron Asher, og tvær dætur hennar eru í hópi um hundrað óbreyttra borgara sem liðsmenn Hamas rændu og handsömuðu á laugardag. Stúlkurnar eru aðeins þriggja og fimm ára.
Nú hefur faðir þeirra og eiginmaður Asher stigið fram og biðlað til mannræningjanna að meiða þær ekki. Asher var stödd með dætur sínar í heimsókn til ömmu þeirra í þorpinu Nir Oz nærri landamærum Gaza þegar liðsmenn Hamas ruddust inn á heimilið.
Henni tókst að hringja í eiginmann sinn, Yoni, og lýsa því sem var í gangi áður en símasambandið rofnaði skyndilega. Síðan þá hefur Yoni ekki heyrt neitt frá eiginkonu sinni og dætrum. „Hún náði að segja mér að hryðjuverkamennirnir væru komnir inn svo ekkert meir,“ segir hann.
Yoni segist strax hafa óttast að þeim hefði verið rænt og fékkst sá grunur staðfestur þegar hann sá mæðgurnar á mynd sem Hamas-liðar birtu af gíslum á samfélagsmiðlum.
Eðli málsins samkvæmt er Yoni mikið í um um að eiginkona hans og dætur komist heilar heim. Bauðst hann meðal annars til að gefa sig fram til Hamas gegn því að þeim yrði sleppt.
„Ég vil biðja Hamas: Ekki meiða þær. Ekki meiða lítil börn. Ekki meiða konur. Ef þið viljið mig í staðinn er ég tilbúinn að koma,“ sagði hann.