Þrátt fyrir að stefnumótaöpp séu ein vinsælasta leiðin til að kynnast fólki í dag, þá benda niðurstöður nýrrar rannsóknar vísindamanna við ríkisháskólann í Arizona til að það að kynnast í gegnum slík öpp sé ekki ávísun á eilífa hamingju.
Samkvæmt því sem kemur fram í rannsókninni þá eru pör, sem kynnast í gegnum stefnumótaöpp, óhamingjusamari í hjónaböndum sínum en fólk sem kynnist upp á gamla mátann með því að hittast í raunheimi, til dæmis í vinnunni eða í skóla.
Rannsóknin náði til 923 hjóna sem voru spurð hversu ánægð þau væru í hjónabandinu og hversu tryggt það væri. Um helmingur hafði kynnst í gegnum stefnumótaöpp en hinn helmingurinn í raunheimi.
Fólkið var til dæmis spurt hversu vel makinn uppfylli kröfur þess og hvort það eða maki þess hefði einhvern tímann stungið upp á því af fullri alvöru að skilja.
Rannsóknin leiddi í ljós að þau hjón, sem höfðu kynnst í gegnum stefnumótaöpp, voru ósáttari í hjónabandi sínu og söknuðu stöðugleika.
Ekki er vitað með vissu hvað veldur þessu en Liesel Sharabi, aðalhöfundur rannsóknarinnar, telur að hugsanlega tengist þetta viðhorfum fólks til para/hjóna sem kynnast í gegnum stefnumótaöpp.