En í raun hafði hann sviðsett eigið mannrán því hann vildi heldur eyða kvöldinu með ástkonu sinni en sambýliskonu sinni. En það komst upp um manninn, sem heitir Paul Lera, og nú þarf hann að greiða þann mikla kostnað sem lenti á lögreglunni vegna leitarinnar.
CNN skýrir frá þessu og segir að Lera hafi logið að sambýliskonu sinni á gamlársdag og sagt henni að hann væri að fara á fund með þjónustufulltrúa sínum í bankanum. En það gerði hann ekki, hann var hjá ástkonu sinni. Það var greinilega svo ánægjulegt að hann vildi eyða meiri tíma með henni og því sendi hann undarlegt sms til sambýliskonu sinnar til að sleppa við að eyða kvöldinu með henni.
„Takk fyrir að senda Paul til mín. Hefndin er sæt. Við höldum honum þangað til á morgun þegar hann lætur okkur fá hjólið sitt. Þá erum við kvitt,“ skrifaði hann.
Skilaboðin voru lesin upp fyrir dómi nýlega þegar málið var tekið fyrir en Lera var ákærður fyrir að hafa sviðsett mannránið.
Að morgni nýársdags voru Lera og ástkonan stöðvuð af lögreglunni. Þá hélt hann því staðfastlega fram að honum hefði verið rænt af hópi manna frá Miðausturlöndum.
Lera var dæmdur til að sinna samfélagsþjónustu næstu þrjú árin og til að greiða kostnað lögreglunnar vegna leitarinnar en hann nemur sem svarar til um 1,4 milljóna íslenskra króna.