Sonur mannsins sem nam hina níu ára gömlu Charlotte Sena á brott í New York-ríki síðastliðinn laugardag segist ekkert vilja hafa með föður sinn að gera.
Maðurinn, Craig Ross, nam stúlkuna á brott þegar hún var úti að hjóla um kvöldmatarleytið á laugardag. Málið vakti mikinn óhug vestan hafs enda óttuðust margir það versta þegar stúlkan skilaði sér ekki heim og hjólið hennar fannst úti í vegarkanti.
Það var svo á mánudag að Charlotte fannst á lífi en Craig hafði lokað hana inni í skáp í húsbíl sem hann á. Lögregla hafði hendur í hári hans eftir að hann fór með bréf að heimili foreldra stúlkunnar þar sem lausnargjalds var krafist. Fingrafar hans var á bréfinu og þar sem hann var á sakaskrá reyndist lögreglu tiltölulega auðvelt að hafa hendur í hári hans.
TMZ ræddi við son Craigs, Joshua, sem fór ófögrum orðum um föður sinn.
„Hann er í fangelsi núna og við viljum ekkert með hann hafa. Mér væri alveg sama þó hann myndi detta niður dauður á morgun – gæti ekki verið meira sama. Hann er ógeðslegur,“ sagði hann.
Craig er 47 ára gamall og var húsbíllinn hans í garði fyrir aftan hús móður hans. Hann er sagður hafa flutt til móður sinnar vegna MS-sjúkdóms sem hann glímir við. Hann hefur verið ákærður fyrir mannrán en ekki þykir ólíklegt að hans bíði ákæra fyrir fleiri brot.