Á þeim tíma sem Perseverance hefur verið á Mars hefur tækið framleitt súrefni sem myndi duga fullorðinni manneskju í þrjár klukkustundir.
Þetta er í fyrsta sinn sem tilraun af þessu tagi hefur verið gerð. MOXIE er á stærð við örbylgjuofn og hefur nú framleitt 122 grömm af súrefni að sögn NASA. Þetta magn myndi duga litlum hundi í um 10 klukkustundir og manneskju í um 3 klukkustundir. Þetta hefur vakið vonir hjá vísindamönnum um að í framtíðinni geti fólk hafst við á Mars.
Live Science segir að 95% af andrúmsloftinu á Mars sé koldíoxíð og því nóg af því til að vinna súrefni úr.
Vísindamenn segja að MOXIE muni ekki aðeins koma að gagni við að framleiða súrefni því tækið geti einnig framleitt eldsneyti fyrir geimflaugar.