BBC hefur komist yfir rannsóknina og segir að þær konur, sem tóku þátt í könnuninni, hafi skýrt frá atvikum á borð við að karlkyns starfsmenn sjúkrahúsa hafi þurrkað enni sitt á brjóstum þeirra og nuddað stífum getnaðarlim sínum upp við þær. Margar segja að þeim hafi verið boðin stöðuhækkun í skiptum fyrir kynlíf.
Það voru vísindamenn við University of Exeter, University of Surrey og Working Party on Sexual Misconduct in Surgery sem gerðu rannsóknina. Hefur niðurstöðunum verið lýst sem „miklu áfalli“.
Tæplega tvær af hverjum þremur konum, sem tóku þátt í rannsókninni, sögðust hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni eða ofbeldi. Þriðjungur sagðist hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi á síðustu fimm árum.
BBC segir að sumar konurnar segist hafa orðið fyrir nauðgun þegar þær voru nemar en aðrar segjast hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni inni á skurðstofum, fyrir framan annað starfsfólk, þegar þær voru nemar.
Rannsóknin hefur verið birt í vísindaritinu British Journal of Surgery.