Húseigandi varð fyrir gífurlegri gagnrýni netverja eftir að myndband af henni var birt á TikTok. Í myndbandinu má sjá konuna neita smið, sem er á heimili hennar að gera upp baðherbergið, um að nota salernið.
Smiðurinn var skiljanlega hissa á ofsafengnum viðbrögðum konunnar og setti myndbandið á TikTok. Þar má sjá smiðinn halda á síma sínum og ræða við konuna, meðan annar er á hnjánum að flísa baðherbergið.
@alexvueltas0@Osha
„Farðu á klósettið heima, þetta er ekki almenningssalerni, þetta er hús og ég vil ekki að þú notir baðherbergið,“ segir konan. „Ekki rífast við mig, það er ég sem borga þér.“
Konan verður sífellt æstari og endar með að segja smiðnum að hypja sig annars muni hún hringja á lögregluna. Konan stendur yfir smiðnum á gólfinu og er farin að rétta honum flísar.
Myndbandið hefur fengið um 3,7 milljónir áhorfa á TikTok og í athugasemdum þá er ljóst að netverjar eru ekki í liði með konunni.
„Ég myndi aldrei koma svona fram við einhvern sem er að gera eitthvað fyrir mig. Jafnvel þó ég sé að borga. Þetta er hræðilegt.“
Sumir lögðu meira að segja til að smiðurinn leitaði lögfræðiráðgjafar vegna atviksins, þar sem konan þyrfti að bjóða upp á salerni, færanlegt ef smiðirnir mættu ekki nota það sem er í húsinu. Smiðurinn greinir frá því að konan borgaði verkið að fullu, þrátt fyrir rifrildið.