John Donohue, kallaður Chickie, fæddist í New York borg árið 1941 og þar varði hann æsku sinni ásamt vinum sínum, Tommy Collins og Rick Duggan.
Þegar Chickie hafði aldur til skráði hann sig í herinn þar sem hann lærði að nota skotvopn, en slapp þó við að vera sendur á átakasvæði. Þegar stríð Bandaríkjanna við Víetnam hófst var Chickie ekki lengur í hernum heldur starfaði sem farandmaður á skipi, en naut þó góðs af reynslunni úr hernum því hann hafði það skjalfest að hann mætti meðhöndla skot og gat því tekið þátt í að flytja birgðir til Víetnam. Þegar stríðið var hvað harðast upplifði hann sig þó gagnslausan.
Hann vissi til þess að minnst 28 menn, sem komu frá gamla hverfinu hans í New York, höfðu látið lífið í átökunum og því fannst honum sárt hversu áberandi mótmæli gegn stríðinu voru í heimalandinu, hann taldi þessi mótmæli gera lítið úr þeirri fórn sem gömlu félagar hans höfðu fært.
Þannig fór það að kvöld eitt í nóvember árið 1967 sat Chickie á bar og fylgdist með fréttum um mótmælin. Aðrir gestir á barnum hnussuðu og kölluðu mótmælendur barnalegt hugsjónarfólk, en barþjóninn George Lynch kom þá með örlagaríka hugmynd.
„Einhver ætti að skella sér til ‘Nam, finna þar strákana úr hverfinu og gefa þeim öllum bjór,“ sagði barþjónninn.
Chickie varð hugsi. Þetta var ekki afleit hugmynd. Þessir strákar gætu dáið hvað og hvenær.
„Þeir voru á aldri við litla bróður minn, en ég þekkti þá. Ég ólst upp í sömu húsum. En ég get sagt ykkur hvað virkilega dreif mig áfram. Mótmælin í Central Park. Þessir mótmælendur gengu um með Vietcong fánan og kyrjuðu: morðingjar, barnamorðingjar, og fleira í þá áttina,“ skrifaði Chickie í endurminningum sínum.
Chickie ákvað að gera hugmynd barþjónsins að veruleika – hann ætlaði á vígstöðvarnar í Víetnam og gefa strákunum úr hverfinu bjór. Þessi tíðindi bárust um hverfið eins og eldur í sinu og Chickie hóf að skipuleggja ferð sína.
Hann nældi sér í vinnu á olíuskipi sem var á leið með birgðir á stríðssvæðið. Með tösku fulla af bjór skellti Chickie sér á sjóinn og hélt í ‘ann.
Hann mætti til Víetnam tveimur mánuðum síðar, í janúar árið 1968. Flestir hermenn sem hann mætti töldu hann vera einhvern njósnara, mögulega fyrir CIA, þar sem hann var þarna mættur á átakasvæði í köflóttri skyrtu og gallabuxum Hann setti stefnuna í átt að svæðinu þar sem Rick var að berjast og sagði öllum sem spurðu að hann væri stjúpbróðir hermannsins.
„Það tók tvo mánuði að sigla þangað, svo ég hafði drukkið allan bjórinn,“ skrifaði Chickie. Ef hann var spurður um erindi sitt svaraði hann hreinskilinn – „Ef ég myndi segja þér sannleikann, þá myndir þú aldrei trúa mér“, en þetta svar gaf orðróminum um að hann væri njósnari byr undir báða vængi.
Hann þurfti því að fylla á töskuna aftur og síðan hélt hann ferð sinni áfram með herskipalestum, með flugvélum og þyrlum þar til hann komst á sinn fyrsta áfangastað. Hann lét hermenn sem voru af lægri stigum vita um markmið sitt og þeir vildu ólmir aðstoða hann, og tóku sérstaklega fram að þeir sjálfir kynnu að meta kaldan bjór. Hann hélt sér þó saman í kringum þá sem hærra voru settir.
„Ef ég myndi segja ykkur sannleikann, þá mynduð þið ekki trúa mér. Því lengur sem ég var þarna, því betur sá ég að þeir voru að leiða mig hjá sér og reyndu ekki að stöðva mig. Og ég þekkti talsmátann frá mínum tíma í hernum svo þetta gekk einhvern veginn upp.“
Á leið sinni fann Chickie Tommy. „Hvern djöfulinn ert þú að gera hér,“ rifjaði Tommy síðar upp að hafa sagt. Þarna hafi gamli félagi hans verið mættur á átakasvæði og þar gengið um eins og hann væri í ósköp venjulegri gólfferð.
Áfram var stefnan sett á Rick. Chickie húkkaði sér far með þyrlu sem var á leiðinni á réttan stað, en þar voru gífurleg átök í gangi.
„Chickie. Andskotinn, hvað í ósköpunum ert þú að gera hérna,“ sagði Rick þegar Chickie hafði fundið hann. Chickie var ekki lengi að svara, ískaldur: „Ég kom með frábæran bjór handa þér beinustu leið frá New York.“
Þegar óvinurinn hóf árás á svipuðum tíma henti Rick sprengjuvörpu til Chickie og þegar átökin voru gengin yfir þá fylgdist Chickie ánægður með þegar Rick og tveir aðrir úr gamla hverfinu settust niður og opnuðu bjórdósirnar.
Þetta var upplögð stund til að skila til Rick frá móður hans að hann ætti að muna að mæta í messu.
Chickie hafði fundið fjóra af þeim sex mönnum sem hann ætlaði sér að finna, en einn hafði látið lífið í stríðinu og annar hafði verið sendur aftur heim með malaríu. Hann dvaldi um skamma hríð með félögum sínum og færði þeim fréttir að heiman áður en furðulostnir hermenn komu þarna að og bentu Chickie á að líklega væri best fyrir hann að koma sér heim – ef hann gæti.
„Bíddu nú við. Ertu að segja mér að þú þurfir ekki að vera hérna, en ert hérna samt?,“ sagði einn forviða.
Chickie hélt þá, óvopnaður, yfir átakasvæði til að koma sér aftur heim og þykir mesta furða að honum hafi tekist það áfallalaust. Hann skilaði sér svo aftur á barinn þar sem hann tilkynnti öllum viðstöddum að honum hafi tekist ætlunarverk sitt. Hann greindi síðar frá því að þetta ferðalag hafi breytt honum, en hann skildi nú mótmælin gegn stríðinu betur. Hann hafði sjálfur séð að yfirvöld voru að ljúga að almenningi í Bandaríkjunum um framvindu stríðsins, sem Bandaríkin voru ekki að vinna, þvert á það sem yfirvöld héldu fram. Þetta hafði Chickie lært frá einu félaga sínum sem brást ókvæða við þegar Chickie reyndi að tilkynna honum að stríðið yrði senn á enda og Bandaríkin myndu vinna.
Chickie vildi fyrir alla muni fá vini sína heim og sem betur fer skiluðu þeir sér – allfir fjórir og enn þann dag í dag hittast þeir reglulega og fá sér bjór.
„Hann stóð sig í stykkinu á tímum þar sem samfélagið vildi ekkert af okkur vita og mótmælendur voru á móti okkur,“ sagði Tommy síðar. „En þannig er Chickie. hann er einn af þeim bestu, en á sama tíma klikkuðustu, mönnum sem þú munt nokkur sinni kynnast.“
Nú gæti lesandi, sem ekki hafði áður heyrt af þessum stórkostlega vinargreiða sögunnar, velt því fyrir sér hvernig svona góð saga hefur ekki ratað í kvikmyndahús, en eigi þarf að örvænta.
Kvikmyndin The Greatest Beer Run Ever kom út á síðasta ári. Þar fer Zac Efron með hlutverk Chickie og sjálfur Bill Murray leikur barþjóninn sem kom með hugmyndina örlagaríku. Þegar myndin kom út sagði Chickie aðspurður að hann hafi haldið af stað óviss um hvort honum myndi takast ætlunarverkið. Í raun hafi hann hreint ekki trúað því, þetta væri ómögulegt.
„En ég varð að reyna, og ef mér skildi misheppnast, þá myndi mér misheppnast. Ég trúi ekki lengur á tilviljanir. Einhver æðri máttur vildi að þetta yrði að raunveruleika.“