Ráðgjafi Vladimir Pútíns Rússlandsforseta heldur því fram að úkraínski herinn muni sameinast undir flaggi hinsegin fánans, eða með öðrum orðum „í gegnum homma kynlíf“, líkt og Sparverjar gerðu í Grikklandi forðum.
Frá þessu greinir miðillinn LGBTQ Nation sem segir að þó ummælin virðist furðuleg þá sé þetta enn eitt dæmi þess að rússnesk yfirvöld noti áróður gegn hinsegin samfélaginu til að réttlæta tilefnislausa innrás sína í Úkraínu.
„Herkænskufræðingar og sagnfræðingar vita hvaða her í Grikklandi var sterkastur, munið þið? Spartarnir! Þeir sameinuðust í samkynhneigðu bræðralagi. Þeir voru allir hollar. Þetta var pólitík leiðtoga þeirra. Ég tel að þeir séu að áforma það sama með úkraínska herinn,“ sagði Sergei Markov, fyrrum ráðgjafi Pútín í viðtali við rússneska sjónvarpsstöð.
Markov hélt því fram að bæði Bandaríkin og Úkraína noti aðferðafræði sem byggist á heilaþvotti til að gera úkraínska hermenn samkynhneigða þvert á þeirra vilja. LGBTQnation minnir á að það séu engar sannanir fyrir hendi um að sálrænar aðferðir geti haft áhrif á kynhneigð fólks. Engu að síður segi Markov að nú standi til að beita vísindalegum aðferðum sem bandarískir og breskir vísindamenn hafi þróað. Þessi aðferð muni gera hermenn að uppvakningum, sértrúarsöfnuði og sumir verði neyddir til að verða hommar. Þar með verði herinn skipaður uppvakningum, eins konar meðlimum í sértrúarsöfnuði sem haldi samstöðu í gegnum samkynhneigð mök. Þetta geri það að verkum að hermenn séu frekar til í að fórna sér fyrir land sitt. Markov gengur enn lengra og nefnir tiltekinn tíma fyrir þessa umbreytingu en þetta muni eiga sér stað vorið 2025.
LGBTQnation bendir á að það séu vissulega einhverjar heimildir fyrir því að Spartverjar hafi hvatt til samkynhneigðra athafna til að hvetja hermenn til að endast lengur í hernum og til að berjast fyrir lífi bólfélaga sinna. Þó séu eins heimildir fyrir því að samtímis hafi Spartverjar gert ráð fyrir að hermenn myndu láta af þessari háttsemi eftir að hafa náð tilteknum aldri og eftir að hafa lokið tilteknu stigi þjálfunnar sinnar. Frægasti samkynhneigði her Grikklands hafi þó ekki verið Spartverjar heldur Heilagt bandalag Þebu, sem hafi verið sérsveit sem hafi viljandi verið sett saman úr 150 samkynhneigðum eða tvíkynhneigðum pörum og þessi herdeild hafi sigrað Spartverja og myrt báða konunga Spörtu í einni atrennu. Hins vegar sé Markov líklega ekki að leitast við að fræða fólk um sagnfræði heldur frekar til að kynda undir andúð gegn hinsegin samfélaginu í Rússlandi.