Þessi merki eru þau hröðustu og björtustu í alheiminum. Nú telja stjörnufræðingar að uppruna þeirra megi hugsanlega rekja til óheppinna loftsteina sem fljúga beint inn í stjörnur sem eru að hrynja saman.
Live Science skýrir frá þessu.
Útvarpsbylgjur af þessu tagi nefnast „fast radio burst“ á ensku. Þetta eru í raun sprengingar sem vara í nokkrar millisekúndur og eru einar öflugustu sprengingarnar sem eiga sér stað í alheiminum.
Vísindamenn komust á sporið um uppruna þessara bylgna þegar þeir námu slíka bylgju sem átti uppruna sinn í Vetrarbrautinni. Uppruni hennar var í nifteindastjörnu.
Áður en stjörnufræðingar námu bylgjuna árið 2020 tóku þeir eftir að snúningshraði nifteindastjörnunnar, sem venjulega snýst einn hring um sjálfa sig á 3,9 sekúndum, hafði breyst.
Þetta telja stjörnufræðingar hægt að tengja við bylgjuna því járnríkur loftsteinn, sem er á braut um nifteindastjörnu, brotnar vegna þyngdarsviðs stjörnunnar. Sum af mörg þúsund brotum hans geta farið á braut um nifteindastjörnuna og það getur valdið skyndilegri breytingu á snúningshraða hennar. Brot úr loftsteininum geta síðan færst nær yfirborði stjörnunnar. Þar enda þau inni í gríðarlega sterku segulsviði hennar og það leiðir til þess að mikil rafspenna myndast því loftsteinar eru mjög járnríkir. Þessi rafsegulsvið í bland við hraða valda því að geislun myndast sem síðan veldur hröðum útvarpsbylgjum.
Þetta er þó bara ein hugsanleg skýring á þessu fyrirbæri og er frekari rannsókna þörf.