fbpx
Föstudagur 13.desember 2024
Pressan

„Hinn raunverulegi Indiana Jones“ fann týnda borg

Jakob Snævar Ólafsson
Laugardaginn 8. júlí 2023 16:00

Rústir einnar borgar Maya, umkringdar skógi/Skjáskot

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

BBC sagði fyrir helgi frá slóvenska fornleifafræðingnum Ivan Šprajc. Hann hefur eytt síðustu 30 árum í að grafa upp löngu glataðar borgir langt inni í regnskógum Yucatán-skaga í Mexíkó.

Hann segir að maður verði að vera pínulítið galinn til að geta stundað svona vinnu. Maður verði að passa sig á snákum, skordýrum, jagúörum og fleiru en þjást eilítið til að finna eitthvað sem fá hafa séð og hefur verið falið í margar aldir.

The Guardian hefur kallað Šprajc „hinn raunverulega Indiana Jones.“ Árið 2013 grófu hann og samstarfsfólk hans upp áður óþekkta 40.000 manna borg frá 8. öld. Í borginni bjó fólk sem tilheyrði þjóðflokki Maya. Ári seinna fann hópurinn tvær aðrar Maya borgir – Lagunita og Tamchén – en í þeim báðum voru pýramída laga musteri, torg og vandlega útskornar styttur. Borgirnar virðast hafa verið yfirgefnar fyrir 1200 árum en hver nákvæmlega ástæðan var fyrir því er ráðgáta.

Það er hins vegar nýjasta uppgötvun Šprajc og hans fólks sem hefur vakið athygli víða um heim. Í síðasta mánuði fundu þau leifar yfirgefinnar borgar Maya, með mörgum pýramída laga byggingum allt að 15 metra háum, djúpt í regnskógi á svæði sem kallast Balamkú og er sérstakt verndarsvæði. Šprajc nenfdi borgina Ocomtún sem þýðir steinsúla á því tungumáli Maya sem kallast Yucatec. Nafngiftin er dregin af hinum mörgu sívölu súlum sem eru dreifðar um svæðið. Rannsókn á leirkerum sem fundust við uppgröftinn gefur til kynna að búið hafi verið í borginni á árunum 600 til 800 eftir Krist.

Ivan Šprajc sem hefur verið líkt við Indiana Jones/Facebook

Šprajc tjáði BBC að þessar borgir hefðu glatast í hendur tímans og enginn hafi vitað nákvæmlega hvar þær voru en nú hafi allar helstu glötuðu borgir Maya á þessum slóðum fundist. Alls var um að ræða 3-4000 ferkílómetra landsvæði sem var áður nánast autt á fornleifaræðilegum kortum en hefur nú verið að miklu leyti kortlagt.

Saga Maya er saga blómlegs mennta- og menningarlífs sem endaði með hruni

Rannsóknir á hinum glötuðu borgum Maya er ætlað að auka skilning á sögu þeirra og hvers vegna siðmenning þeirra hrundi. Mayar ríktu yfir Mið-Ameríku á blómatíma sínum frá 200-900 eftir Krist. Þeir voru einna þekktastir fyrir há pýramída laga musteri og að hafa byggt um 40 borgir úr útskornum steini. Mayar voru miklir stjörnufræðingar, stærðfræðingar og rithöfundar. Þeir skráðu t.d. sólmyrkva og sólstöður og byggðu mikilvægustu byggingar sínar eftir hreyfingum himintunglanna.

Mayar fundu upp töluna núll um 1000 árum á undan Evrópumönnum og þróuðu dagatal sem var nákvæmara en það sem var notað í Evrópu. Þeir voru meðal þeirra fyrstu í heiminum til að þróa ritmál og skrifuðu fjölda bóka. Talið er einnig að þeir hafi fundið upp súkkulaði og gúmmí. Šprajc eins og svo margir fræðimenn er heillaður af sögu Maya og hvernig þeir fóru að því að byggja blómlegar borgir í miðjum regnskógum.

Þrátt fyrir rannsóknir í tæpa öld er enn á huldu hvers vegna Mayar yfirgáfu borgir sínar á 8. – 9. öld og blómleg siðmenning þeirra hrundi. Šprajc og aðrir fræðimenn hafa velt fyrir sér ástæðum eins og stríði, þurrkum, jarðvegseyðingu og loftslagsbreytingum.

Allar týndar Maya borgir sem finnast geta hins vegar veitt mikilvægar vísbendingar sem geta gagnast við að svara hvers vegna svona fór.

Plöntu – og dýralíf á Balamkú verndarsvæðinu er afar fjölbreytt og það er erfitt yfirferðar. Šprajc og hans fólk notar því leysigeislatækni sem kallast Lidar. Þessi tækni hefur auðveldað mjög rannsóknir fornleifafræðinga á menningu Maya en hún er ekki síst notuð til að skanna landslag á tilteknum svæðum og uppgötva manngerðar breytingar á því. Með notkun Lidar sáu Šprajc og hans fólk að átt hafði verið við landslagið þar sem þau fundu loks borgina Ocomtún.

Borgin náði yfir rúmlega 50 hektara svæði og auk pýramída og og steinsúlna fann hópurinn t.d. altari, þrjú torg og völl þar sem Mayar hafa leikið knattleik sem þeir þróuðu.

Kollegar Šprajc sem hafa einnig rannsakað sögu og menningu Maya segja fund Šprajc og hans samstarfsfólks á borginni Ocomtún mjög mikilvægan til að skilja hvers vegna Mayar yfirgáfu borgir sínar í regnskógum í námunda við sjóinn og fluttu innar í landið. Borgunum var eitthvað haldið við fram á 10. öld þegar hin blómlega siðmenning Maya, í þáverandi mynd, hrundi endanlega.

Šprajc ætlar að halda áfram að rannsaka Ocomtún og siðmenningu Maya sem hvarf alls ekki fyrir fullt og allt þótt hún hafi orðið fyrir svo miklum áföllum að hún var líklega um tíma á barmi þess. Hann segist alls ekki sammála því að öll rómantík í kringum fornleifafundi sé horfin með t.d. innleiðingu tækni eins og Lidar. Rómantíkin bresti fram þegar rembast er í gegnum frumskóginn þar til við blasir pýramídi eða áletruð stytta. Þá sé erfiðið allt þess virði.

Það ber að lokum að árétta að þrátt fyrir að siðmenning Maya hafi hrunið á 10.öld og að um 90 prósent þeirra hafi látist á 16. öld vegna sjúkdóma, árása og þrælkunar spænskra landvinningamanna lifa í dag um 6-8 milljónir Maya í Mexíkó og nokkrum öðrum löndum í Mið-Ameríku og tala 28 tungumál.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 3 dögum

Afbrotafræðinemi myrti hugsanlega konu til að „sjá hvernig það væri“

Afbrotafræðinemi myrti hugsanlega konu til að „sjá hvernig það væri“
Pressan
Fyrir 3 dögum

„Undraland vetrarins“ sagt vera hrein blekking

„Undraland vetrarins“ sagt vera hrein blekking
Pressan
Fyrir 4 dögum

Lokkuð í frí af „kærastanum“ – Var upphafið að hryllingi

Lokkuð í frí af „kærastanum“ – Var upphafið að hryllingi
Pressan
Fyrir 4 dögum

Réðst á ísbjörn til að bjarga konunni sinni

Réðst á ísbjörn til að bjarga konunni sinni