Kona nokkur í Ástralíu, Lillian Ip, lenti í þeim hrakförum að þegar hún ætlaði að halda í stutta ferð yfir óbyggðir í Ástralíu að taka vitlausa beygju.
Hún endaði í botnlanga og festi bíl sinn. Meðferðis hafði hún engan vökva, fyrir utan eina litla safafernu og eina vínflösku sem hún ætlaði að gefa móður sinni. Ekki hafði hún mikinn mat heldur, bara nokkra sleikjóa.
Lillian hins vegar drekkur ekki áfengi, þar sem hún hefur ofnæmi fyrir því, en þarna var um neyð að ræða svo hún gerði undantekningu.
Lillian, sem glímir við heilsubrest sem erfiðar henni hreyfingu, ákvað að halda kyrru fyrir í bílnum í von um að einhver myndi finna hana.
„Ég hugsaði, hvernig í ósköpunum á ég að komast héðan? Ég hafði ekkert símasamband. Ég reyndi að hringja um 50 sinnum“
Sem betur fer var hún með tvö teppi með sér og gat kveikt á miðstöðinni í bílnum á nóttunni.
Eftir fjóra daga varð hún þó úrkula vonar og viss um að dagar hennar væru taldir. Hún ákvað að skrifa bréf til ástvina sinna þar sem stóð:
„Ef þið hafið ekki fundið mig fyrr en nú þá gæti ég verið dauð út af kuldanum. Ég elska ykkur öll. Ekki gráta mig.“
Lögreglu hafði þó verið gert viðvart um að hún væri horfin sama dag og hún festi bílinn, eftir að ástvinir urðu áhyggjufullir þegar hún hafði ekki haft samband.
Það tók þó sinn tíma að hafa uppi á henni. Á fimmta degi var lögregluþyrla að fljúga yfir svæðið í leit að Lillian. Þá sáu þeir hvar Lillian stóð og veifaði sem óð væri.
Þar með var henni bjargað og flutt til aðhlynningar á sjúkrastofnun þar sem hún þjáðist af vökvaskorti.
Fjölskylda hennar mun vera fegin að hafa heimt hana úr helju og hefur nú bannað henni að ferðast eitt né neitt einsömul.