Um miðjan sjöunda áratug síðustu aldar héldu hjón frá Tékkóslóvakíu til Bandaríkjanna. Eiginmaðurinn, Karel Koecher, var um áratug eldri en eiginkonan, Hana Koecher. Þau settust að í Bandaríkjunum og bjuggu þar næstu árin.
Karel þótti mjög greindur. Hann talaði fjögur tungumál, frönsku, ensku, rússnesku auk móðurmálsins tékknesku. Karel hafði stundað háskólanám í eðlisfræði og stærðfræði og í Bandaríkjunum lauk hann doktorsprófi í heimspeki.
Hana var ekki síður greind en gekk þó ekki eins langt á menntabrautinni. Hún fór að starfa í hinum ábatasama demantaiðnaði og ferðaðist oft á milli Bandaríkjanna og Evrópu og þá oft með háar peningaupphæðir í farteskinu. Hjónin lifðu þægilegu lífi og bjuggu í glæsilegri íbúð á Manhattan.
Hjónin sögðust hafa neyðst til að flýja heimaland sitt vegna pólitískra ofsókna stjórnvalda í þeirra garð. Þau lýstu sjálfum sér sem andófsmönnum.
Það var hins vegar lygasaga. Hjónin voru starfsmenn leyniþjónustu Tékkóslóvakíu og voru send til Bandaríkjanna til að afla upplýsinga og stunda njósnir.
Fyrstu árin gengu njósnir hjónanna misvel. Í byrjun áttunda áratugarins fór þó að ganga betur. Hjónin fengu bæði bandarískan ríkisborgararétt og Karel var ráðinn til starfa hjá bandarísku leyniþjónustunni (CIA). Starf Karels fólst aðallega í að þýða og greina m.a. hleruð símtöl, skjöl og annað sem tengdist ýmsu varðandi njósnir CIA í Sovétríkjunum og Tékkóslóvakíu.
Karel var kominn með góðan aðgang að starfsemi CIA og gat komið verðmætum upplýsingum til bæði Tékkóslóvakíu og sovésku leyniþjónustunnar (KGB).
Um þetta leyti fengu hjónin hugmynd um nýja leið til að afla upplýsinga og njósna um starfsemi CIA. Karel og Hana urðu tíðir gestir á samkomum sem snerust um makaskipti (e. swinging). Þau heimsóttu einnig slíka klúbba. Meðal þeirra sem heimsóttu sömu staði og hjónin, í þeim tilgangi að stunda kynlíf með öðrum en maka sínum, voru starfsmenn CIA, varnarmálaráðuneytisins og að minnsta kosti einn öldungardeildarþingmaður.
Hjónin voru meðlimir í nokkrum makaskiptahópum og reglulegar samkomur eins þeirra voru haldnar í byggingu sem var um það bil 400 metra frá Hvíta húsinu í Washington.
Markmið hjónanna var að nýta þessar samkomur til að afla leynilegra upplýsinga eða kúga þátttakendur til að veita slíkar upplýsingar, annars yrði áhugamálið afhjúpað.
Óljóst er hversu miklar eða hvaða upplýsingar Karel og Hana Koecher fengu á þessum kynlífssamkomum. Þegar best lét voru þau hins vegar og þá sérstaklega Karel afar verðmætir njósnarar fyrir bæði Tékkóslóvakíu og Sovétríkin. Til að mynda afhjúpaði hann að sovéski stjórnarerindrekinn Aleksandr Ogorodnik stundaði njósnir fyrir Bandaríkin. Ogorodnik var í kjölfarið handtekinn og játaði njósnirnar en náði að taka inn eitur og binda enda á líf sitt.
Hjónin voru hins vegar ekki lengi á toppnum. Sagt er að traustið austan járntjalds hafi verið þverrandi í þeirra garð, þegar komið var fram á árið 1976, og Koecher sagði síðar að honum hafi verið skipað að láta af störfum hjá CIA. Aðrar heimildir segja að Bandaríkjamenn hafi grunað hann um að leka upplýsingum og látið hann fara.
Það virðist hins vegar ekki hafa tekist að sanna neitt á hjónin og á níunda áratugnum hóf Karel aftur störf fyrir CIA en nú sem verktaki.
Adam var hins vegar ekki lengi í paradís. CIA og alríkislögreglan (FBI) fengu loks veður af því hjónin væru njósnarar fyrir Tékkóslóvakíu og Sovétríkin. Sumar heimildir segja að nöfn þeirra hafa borið á góma í símtölum, njósnara frá þessum löndum, sem voru hleruð og í kjölfarið hafi fulltrúar FBI fylgst með þeim og séð þau afhenda upplýsingar. Aðrar heimildir herma að upplýsingum um þau hafi verið komið til Bandaríkjamanna.
Árið 1984 fundu hjónin að það var farið að þrengja að þeim. Þau sögðu nágrönnum sínum að þau hyggðu á flutninga til Evrópu. Þau voru þó ekki nógu fljótt að flytja og voru handtekin.
Fangelsisdómur blasti þó ekki við. Hana Koecher var í fyrstu neitað um aðstoð lögmanns og þar sem um skýrt brot á hennar réttindum var að ræða var málið gegn henni ónýtt. Hún neitaði að bera vitni gegn Karel og beinar sannanir gegn honum voru litlar.
Eftir meint banatilræði gegn Karel í fangelsinu lýsti hann sig tilbúinn til að játa sig sekan gegn því að vera komið austur yfir járntjald í gegnum fangaskipti. Bandaríkjamenn vildu ekki eiga hættu á að hann yrði sýknaður í réttarhöldum. Hjónin voru því látin laus í gegnum fangaskipti við Sovétríkin, 1986.
Hjónunum var tekið sem þjóðhetjum þegar þau sneru aftur til Tékkóslóvakíu. Verulega dró hins vegar úr hetjuljómanum eftir að kommúnistastjórnin féll. Þegar síðast fréttist af þeim lifðu þau hæglátu lífi í nágrenni Prag.