Nasyrova, sem er rússnesk, var vægast sagt ósátt við dómarann og lét svívirðingum rigna yfir hann þegar hann hafði kveðið dóminn upp í hæstarétti í New York. New York Post skýrir frá þessu.
Morðtilraunin átti sér stað 2016. Það var Olga Tsvyk sem hún ætlaði að ryðja úr vegi. CBS News hefur eftir henni að Nasyrova hafi átt auðvelt með að vinna sér traust fólks og að stela og reyna að drepa.
Sumarið 2016 fór Nasyrova heim til Tsvyk og hafði ostaköku meðferðis. Hún bauð Tsvyk sneið, sem búið var að dæla öflugu deyfilyfi í, eftir að hafa sjálf borðað tvær sneiðar, sem voru lausar við deyfilyfið.
Tsvyk sagðist hafa veikst um 20 mínútum eftir að hafa borðað kökuna. Hún fór þá og lagðist út af og lá þar til næsta dag þegar vinur hennar fann hana meðvitundarlausa. Var búið að dreifa lyfjum í kringum hana. Með því átti að láta líta út fyrir að Tsvyk hefði tekið eigið líf.
Hún var flutt á sjúkrahús og náði sér að fullu. Þegar hún fór aftur heim áttaði hún sig á að vegabréf hennar og atvinnuleyfi voru horfin auk gullhrings og annarra verðmæta.
Á þessum tíma voru hún og Nasyrova ekki ólíkar í útliti og báðar rússneskumælandi.
Þetta var ekki í fyrsta sinn sem Nasyrova komst í kast við lögin því hún er eftirlýst í Rússlandi fyrir morð á 54 ára nágranna hennar 2014. Hún flúði til New York eftir að hún var sökuð um að hafa myrt nágrannann og stolið peningunum hans.