Þann 25. janúar 2019 mætti hinn 31 árs hjúkrunarfræðingur Cody Amato ekki í vinnu. Það olli samstarfsmönnum hans á sjúkrahúsinu í Orlando í Flórída töluverðum áhyggjum. Cody mætti alltaf manna fyrstur enda bæði metnaðargjarn og með ástríðu fyrir starfi sínu.
Samstarfsmaður hringdi í kærustu Cody, sem hafði ekki glóru um hvar hann var og gat heldur ekki náð á hann. Þá hringdi samstarfsmaðurinn í lögreglu og bað um að bankað yrði upp á heima hjá Amato fjölskyldunni, þar sem Cody bjó ásamt foreldrum sínum og yngri bróður, Grant.
Allir myrtir – nema einn
Lögreglumenn brugðust skjótt og komu að glæsihýsi fjölskyldunnar klukkan rétt rúmlega níu. Enginn svaraði og allar dyr læstar en lögregla taldi ástæðu til að brjóta sér hreinlega leið inn.
Eitthvað sagði þeim að ekki væri allt í lagi. En ástandið var miklu verra en þeir höfðu átt von á.
Fyrst fundu þeir hinn 59 ára gamla Chad Amato, föður Cody, liggjandi á eldhúsgólfinu. Hafði hann verið skotinn tvisvar í höfuðið. Margaret Amato, 61 árs móðir Cody, fannst látinn við skrifborð sitt og hafði hún einnig verið skotin í höfuðið.
Lík Cody fannst í geymslurými og hafði hann hlotið sama dauðdaga og foreldrar hans.
En það var hvergi að finna fjórða meðlim Amato fjölskyldunnar, hinn 29 ára gamla Grant.
Hann fannst þó fljótlega á hóteli, ekki langt frá heimilinu, og tekinn til yfirheyrslu.
Grant
Smám saman komst mynd á þá undarlegu atburðarás sem varð til þess að Chad, Margaret og Cody Amato létu lífið.
Grant Amato var yngri sonur Chad og Cody, en næstum allir meðlimir fjölskyldunnar áttu farsælan feril í heilbrigðisgeiranum. Chad var lyfjafræðingur og Margaret starfaði sem rekstrarstjóri á nálægu sjúkrahúsi.
Chad og Grant hugðu einnig á feril innan sama geira og luku námi í hjúkrunarfræði. Báðir fóru þeir síðan í framhaldsnám í svæfingarhjúkrun. Cody lauk náminu, en Grant ekki.
En Grant var samt sem áður með hjúkrunargráðu og hóf störf á sjúkrahúsi í Orlando en var rekinn árið 2018. Hafði hann gefið átta sjúklingum afar sterk verkjalyf án þess að hafa til þess leyfi lækna. Hann var auk þess kærður fyrir stórfelldan þjófnað á lyfjum og fleiru en lét sjúkrahúsið málið niður falla.
Ferill Grants sem hjúkrunarfræðingur var í rúst og fékk hann hvergi vinnu.
Hann sagði fjölskyldunni sinni að hann gæti aflað sér tekna með streymi á vefsvæðinu Twitch, aðallega með tölvuleikjaspilun. Fjöldi áhugasamra spilara myndu fúslega greiða fyrir áskrift að slíku.
Bæði faðir hans og bróðir studdu fjárhagslega við Grant í þessu uppátæki sínu og létu hann fá kreditkortanúmer sína til að greiða fyrir allan tæknibúnað auk auglýsinga.
Silvie
En Grant blómstraði ekki í streyminu og tekjuhæsta mánuðinn þénaði hann aðeins um 20 þúsund krónur íslenskar.
Hann hætti að nenna þessu og fór þess í stað að hanga á klámrásum og þá sérstaklega á rásum svokallaðra ,,cam girls“ en það eru stúlkur og konur sem streyma erótískri skemmtun til aðila sem greiða fyrir slíkt.
Grant var sérstaklega hrifin af einni slíkri, hinni búlgörsku ,,Silvie.“ Hann varð reyndar algjörlega heltekin af Silvie og eyddi fleiri klukkutímum daglega í rándýrt einkaspjall sem kostaði að meðaltali yfir 80 þúsund krónur skiptið.
Grant sagði Silvie að hann væri vellauðugur tónlistarmaður og mokaði í hana fé. Hann keypti einnig handa henni mikið magn undirfatnaðar til nota þegar að hún hélt netsýningar sínar fyrir Grant.
Silvie varð æ elskulegri eftir því sem fjárstreymið til hennar jókst og svo fór að Grant fór að trúa því í fullri alvöru að þau væru ástfangin.
Væru par.
Þráhyggja hans og stjórnlaus eyðsla versnaði stöðugt.
Grant var búinn að eyða 28 milljónum af fé fjölskyldu sinnar í Silvie, aðeins á örfáum mánuðum, þegar að Chad setti syni sínum stólinn fyrir dyrnar. Krafðist hann útskýringa og viðurkenndi Grant að allt hefði farið í Silvie.
Í klám, sé nú talað hreint út.
Fjárhagur fjölskyldu í rúst
Cody sendi Grant á fyrsta flokks meðferðarstöð fyrir klámfíkla og greiddi rúmar tvær milljónir fyrir.
Grant átti að dvelja á meðferðarstöðinni í tvo mánuði en gekk út eftir aðeins örfáa daga. Sagði hann fjölskyldu sinni að starfsmenn meðferðarstöðvarinnar hefðu sagt hann ekki vera með fíkn og hefði ekkert þar að gera.
Sem var lygi.
Nú var verulega farið að fjúka í Chad. Hann hafði verið að stefna að því að hætta að vinna, enda rétt að verða sextugur og alltaf unnið mikið. Vildi hann njóta efri ára í frið og spekt en þess í stað varð hann að seinka starfslokum sínum þar sem fjárhagur fjölskyldunnar var á hraðleið í rjúkandi rústir vegna gjörða Grants.
Chad sagði syni sínum að hann fengi ekki fleiri sénsa og vildi hann búa á heimilinu, yrði hann að fara eftir lista af reglum sem foreldrar hans settu á blað.
Meðal reglnanna var að Grant mátti ekki fara á netið án eftirlits, hann mátti ekki eiga snjallsíma og það mikilvægasta: Hann mátti ekki undir neinum kringumstæðum hafa samband við Silvie.
Gat ekki lifað án ,,Silvie“
Grant var miður sín og fannst veröld sín hrunin. Honum tókst að lokum að sannfæra móður sína um að leyfa sér að nota hennar síma og hafði auðvitað beint samband við Silvie.
Þegar að faðir hans frétti af símanotkunni sagði hann nóg komið og skipaði Grant að flytja út.
Það sem vakti hvað fyrst athygli lögreglu var að Grant spurði aldrei af hverju lögregla vildi fá hann til yfirheyrslu og var reyndar sultuslakur. Hafði lögregla ekki minnst á morðin við hann.
Það tók lögreglu ekki langað tíma að komast að öllu sem á undan hafði gengið. Lögregla spurði hreint út hvort Grant hefði myrt foreldra sína og bróður en hann neitaði því. Sagði hann sennilegast að Cody hefði myrt foreldra sína og svo framið sjálfsvíg.
Sem reyndist útilokað þar sem líki hans hafði verið snúið eftir dauða hans og byssa sett við hlið hans, til að láta líta út sem hann hefði framið morðin, en hún var röngu megin við rétthentan mann og augljóslega komið fyrir eftir lát hans.
Samt sem áður hafði lögregla engar skotheldar sannanir á Grant og neyddist því að láta hann lausan úr haldi.
Drifið sem dæmdi
En ekki leið á löngu þar til lögregla fann USB drif í fórum Grant og hafði það tengst IP tölu á tölvu Amato fölskyldunnar rétt fyrir miðnætti 24. janúar. Var það nokkrum klukkustundum eftir áætlaðan dánartíma. Á drifinu voru meðal annars yfir 500 myndi af hinni kynþokkafullu Silvie, hálfnaktri eða naktri.
Grant var handtekinn skömmu síðar.
Ákæruvaldið hélt því fram að USB drifið sannaði að Grant hefði verið á heimilinu um það leyti sem morðin voru framið. Sérfræðingar, sem fengu aðgengi að öllum tölvum fjölskyldunnar, voru einhuga sammála ákæruvaldinu.
Að sögn saksóknara var Grant Amato svo reiður yfir aðskilnaði sínum frá Silvie og bannfæringu hans frá heimilinu að hann fór inn í húsið um klukkan 17:30 þann 24. janúar og skaut móður sína í höfuðið á meðan hún vann á skrifstofu sinni.
Hann beið síðan í eldhúsinu og þegar faðir hans kom heim skaut Grant hann einu sinni bak við eyrað. Kúlan fór í gegnum höfuðið á honum en Chad dó ekki heldur skreið um eldhúsgólfið í örvæntingu sinni þar til Grant missti þolinmæðina og skaut hann aftur í höfuðið.
Ævilangt fangelsi
Grant notaði síðan þumalfingur látins föður síns til að opna síma hans og sendi bróður sínum, Cody, sms skilaboð í hans nafni. Bað hann Cody um að koma heim hið snarasta. Cody las skilaboðin, sem hann eðlilega taldi vera frá föður sínum, og fór heim en þar beið bróðir hans í leyni og skaut hann til bana.
Setti hann síðan byssuna við hlið hans til að láta líta svo út að Cody hefði myrt foreldra sína og framið sjálfsvíg.
Grant dvaldi í marga klukkutíma á heimilinu eftir morðin. Hékk á netinu í sambandi við hina búlgörsku kynbombu, Silvie.
Það fundust púðurleifar á höndum og fötum Grants en þrátt fyrir yfirgnæfandi sannanir hélt hann fram sakleysi sínu.
En því trúði ekki nokkur maður og þann 12. ágúst 2020 var Grant Amato fundinn sekur um þrjú morð.
Hann fékk ævilangt fangelsi án nokkurs möguleika á reynslulausn.
Hver urðu afdrif Silvie eru óljóst. Hún er eflaust komin með nýtt nafn og nýja aðdáendur.
Grant heldur enn fram sakleysi sínu og leitar útgefanda til að gefa út ævisögu sína.
Það hefur ekki tekist.