Steve Shanks, 45 ára Breti, hneig niður og lést þegar hann var á leið heim til sín, örfáum klukkustundum eftir að hafa lokið við Lundúnamaraþonið síðastliðinn sunnudag.
Shanks var öflugur hlaupari sem hafði tekið þátt í mörgum hlaupum í gegnum tíðina.
Til marks um það kom hann í mark á 2 klukkustundum og 53 mínútum um helgina en sá tími hefði til dæmis skilað honum í 9. sætið í Reykjavíkurmaraþoninu síðasta sumar.
Skipuleggjendur Lundúnamaraþonsins staðfestu andlát Shanks í dag í yfirlýsingu sem þeir sendu frá sér.
Steve var búsettur í Nottingham og var hann á leið heim til sín eftir hlaupið þegar hann hneig skyndilega niður. Hann var úrskurðaður látinn í kjölfarið.
Krufning mun fara fram til að skera úr um dánarorsök.
Eiginkona Steve, Jessica, minntist eiginmanns síns á Facebook og sagði að fjölskyldan væri harmi slegin vegna andlátsins.