Þessari spurningu var velt upp í grein á vef Live Science og sú mynd dregin upp að allt fólk hyrfi skyndilega en hundar yrðu eftir. Gætu hundar lifað af við slíkar aðstæður?
Jessica Pierce, hjá Center for Bioethics and Humanities við University of Colorado og höfundur bókarinnar „A Dog´s World: Imagining the Lives of Dogs in World without Humans“, sagðist ekki vera í neinum vafa um að hundar myndu lifa af án okkar. „Hundar eru afkomendur úlfa og þeir eru enn með mikið af hegðunarmynstri úlfa og annarra villtra hundategunda, svo þeir vita hvernig á að veiða og finna hræ,“ sagði hún.
Ef fólk hyrfi af sjónarsviðinu myndu hundar líklega hverfa aftur til fortíðar og lifa eins og villtar tegundir gera. Það myndu þó ekki allir hundar lifa þetta af. Ótrúlegur fjöldi hundategunda er til og sumar þeirra eru verr í stakk búnar til að takast á við lífið upp á eigin spýtur. Til dæmis glíma tegundir með flatt andlit oft við margvísleg heilsufarsvandamál, til dæmis sem gera öndun þeirra erfiða, sem myndu gera þeim erfitt fyrir við veiðar. Einnig standa tegundir með stutt skott illa að vígi því það kemur sér illa félagslega í samskiptum við aðra hunda. Pierce benti á að skottið sé mikilvægur hluti af af samskiptakerfi hunda og ef hundur eigi erfitt með að sýna tilfinningar sínar geti það leitt til slagsmála.