The Guardian segir að yfirvöld hafi nú staðfest að verið sé að rannsaka orðróm um að eitrað hafi verið fyrir stúlkunum í „hefndarskyni“ fyrir mótmælin sem hafa staðið yfir í landinu síðustu mánuði.
Younes Panahi, varamenntamálaráðherra, sagði að flest fórnarlömbin hafi þurft á „mildi meðferð“ að halda. Hann sagði að komið hafi í ljós að efni hafi verið notuð til að eitra fyrir stúlkunum, þó ekki kemísk efni eins og eru notuð í stríðsrekstri. Hann sagði að reynt hafi verið að hræða stúlkurnar frá að ganga í skóla og það virðist hafa virkað því eftir þetta hafa flestar stúlkur í skólum bæjanna hætt námi.
Homayoun Sameyah Najafabdi, sem á sæti í heilbrigðismálanefnd þingsins, staðfesti við The Guardian að vísvitandi hafi verið eitrað fyrir stúlkunum.
Fyrstu veikindin komu fram í lok nóvember en þá þurftu 18 stúlkur úr skóla í Qom að fá meðhöndlun á sjúkrahúsi eftir að þær fundu fyrir ógleði, höfuðverk, öndunarörðugleikum og óreglulegum hjartslætti. Í desember veiktust um 50 stúlkur, úr sama skóla, til viðbótar.
Engar fréttir hafa borist af dauðsföllum.