The Guardian segir að McWhorter hafi skotið Richard Ward, 32 ára, þremur skotum af stuttu færi þann 22. febrúar 2022. McWhorter fékk heiðursmerkið af því að hann hlaut áverka á nefi, fingri, baki, hné og hnakka þegar hann tókst á við Ward.
Atvikið átti sér stað þegar Ward reyndi fyrir mistök að fara inn í ranga bifreið þegar hann var að sækja bróður sinn í skólann.
Fjölskylda Ward hefur höfðað mál á hendur lögreglunni vegna málsins.
Talsmaður lögreglunnar sagði að lögreglustjórinn muni ekki tjá sig um veitingu heiðursmerkisins en staðfesti að McWhorther hafi fengið það fyrir það sem hann gerði daginn sem Ward var skotinn til bana.
Daginn örlagaríka fór Ward með móður sinni og unnusta hennar til að sækja yngri bróður hans í skólann. Á meðan þau biðu fékk Ward sér göngutúr. Þegar hann kom aftur opnaði hann dyrnar á bíl sem líktist bíl móður hans. Hann áttaði sig snarlega á mistökunum, bað ökumanninn afsökunar og gekk að bíl móður sinnar. Þá komu lögreglumenn á vettvang, þar á meðal McWhorter. Tilkynnt hafði verið um grunsamlegan aðila á svæðinu.
McWhorter gekk að Ward, sem sagði lögreglumönnunum að honum liði illa nærri lögreglumönnum því hann hefði áður verið beittur mikilli hörku af lögreglumönnum. Þetta kemur fram á upptöku úr búkmyndavélum lögreglumannanna.
Ward sagði þeim einnig hvað hafði gerst þegar hann opnaði dyrnar á röngum bíl. Hann tæmdi vasa sína þegar McWhorter bað hann um skilríki. Hann sagðist einnig kannski vera með vasahníf á sér en síðar kom í ljós að svo var ekki, hann var ekki með nein vopn.
Hann tók síðan upp kvíðastillandi lyf, sem hann hafði fengið ávísað, og setti upp í sig. Þá breyttist ástandið mjög miðað við það sem sést á upptökum búkmyndavélanna. McWhorter spurði Ward þá hvað hann hefði sett upp í sig. Án þess að gefa honum færi á að svara, dró hann Ward út úr bílnum og kastaði honum á jörðina.
„Þetta var tafla,“ sagði Ward þá. Eftir nokkurra sekúndna baráttu, sem varð til þess að annar lögreglumaður kom á vettvang, heyrast þrjú byssuskot. McWhorter skaut Ward þá þremur skotum í bringuna af örstuttu færi. Hann var úrskurðaður látinn á vettvangi.
McWhorter hélt því fram að hann hafi óttast að Ward væri að reyna að ná byssunni hans og því hafi hann skotið hann. Saksóknari komst síðar að þeirri niðurstöðu að drápið á Ward hafi verið réttlætanlegt.
Þettta var í annað sinn sem McWhorter fékk heiðursmerki lögreglunnar. 2018 var hann sæmdur æðsta heiðursmerki lögreglunnar eftir að hann skaut vopnaðan ræningja 10 sinnum. Sá hafði beint byssu að McWhorter og öðrum lögreglumanni. Þeir voru báðir sæmdir þessu æðsta heiðursmerki lögreglunnar.