Þetta kemur fram í háleynilegri skýrslu frá bandaríska orkumálaráðuneytinu. The Wall Street Journal hefur komist yfir skýrsluna.
Þessi niðurstaða gengur þvert gegn því sem ráðuneytið hefur áður sagt en það hefur fram að þessu gefið í skyn að óljóst væri hvaðan veiran hafi borist.
Allt frá upphafi heimsfaraldursins hefur því verið velt upp hvort hugsast geti að hún hafi sloppið út frá rannsóknarstofu.
Almennt hefur borgin Wuhan verið nefnd sem upphafsstaður heimsfaraldursins en spurningin hefur verið hvort veiran hafi borist úr dýri á kjötmarkaði í borginni eða úr rannsóknarstofu þar í borg.
The New York Times fjallar einnig um málið og segir að upplýsingar, sem bandarískum leyniþjónustustofnunum hafa borist, bendi í ýmsar áttir hvað varðar uppruna faraldursins.
Kenningin um að veiran hafi borist frá kínverskri rannsóknarstofu nýtur stuðnings bandarísku alríkislögreglunnar FBI sem hefur af „hóflegu öryggi“ komist að þeirri niðurstöðu að veiran hafi borist frá Wuhan Institut for Virologi. Þar er unnið við rannsóknir á ýmsum kórónuveirum.
The New York Times hefur eftir heimildarmönnum að heimildir orkumálaráðuneytisins um uppruna veirunnar, séu „frekar veikar“ og það sé því með „litlu öryggi“ sem komist hafi verið að niðurstöðunni um að veiran hafi sloppið út frá rannsóknarstofu.