BBC skýrir frá þessu og segir að rannsóknarnefndin hafi verið sett á laggirnar til að rannsaka ásakanir um kynferðislegt ofbeldi starfsfólks kirkjunnar gagnvart börnum síðustu áratugi.
Rannsóknarnefndin segir í skýrslu sinni að niðurstaða hennar sé aðeins toppurinn á ísjakanum. Pedro Strecht, barnasálfræðingur og formaður nefndarinnar, sagði við kynningu skýrslunnar að hlutverk nefndarinnar hafi verið að veita þolendunum rödd.
Hann hrósaði þeim mörg hundruð sem settu sig í samband við nefndina til að skýra frá því sem þau höfðu lent í. „Þau eru með rödd, þau hafa nafn,“ sagði hann.
Í heildina skráði nefndin mál 564 fórnarlamba sem sögðust hafa verið beitt kynferðislegu ofbeldi af hálfu presta eða annarra starfsmanna kirkjunnar. Elstu málin eru frá 1950. Í frásögnum sumra komu fram vísbendingar um að önnur börn hefðu einnig verið misnotuð og þess vegna telur nefndin að fjöldi fórnarlamba hlaupi á þúsundum.