ScienceAlert segir að samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar þá hafi skákmenn gert fleiri mistök í keppnisskák ef magn örsmárra agna í lofti jókst um ákveðið magn. En ekki nóg með það, því mistökin urðu sífellt verri miðað við greiningu gervigreindarforrits sem var notað til að greina skákir.
Þegar magn öragna jókst um 10 µg/m3 jukust líkurnar á mistökum skákmanns um 2,1 prósentustig og stærð mistakanna jókst um 10,8%.
Juan Palacios, meðhöfundur rannsóknarinnar, sagði að rannsóknin sýni að eftir því sem loftmengunin sé meiri, þeim mun fleiri mistök geri skákmenn og þau verði alvarlegri.
Í rannsókninni fylgdust vísindamennirnir með 121 skákmanni í þremur átta vikna skákmótum í Þýskalandi frá 2017 til 2019. Voru rúmlega 30.000 leikir þeirra greindir með aðstoð gervigreindarforrits sem lagði mat á hvern leik, fann bestu leikina og benti á mistök.
Á skákmótunum voru loftgæðin mæld innanhúss.
Rannsóknin hefur verið birt í tímaritinu Management Science.