Lögreglan í Mojave County tilkynnti í síðustu viku að með DNA-rannsókn hafi tekist að bera kennsl á konuna. Hún hét Marina Ramos og var 28 ára þegar hún var myrt. Hún var búsett í Bakersfield í Kaliforníu.
Það voru fjórir ferðamenn sem fundu lík hennar á vegi nærri ríkjamörkum Arizona og Nevada í Mojave County. Þá var innan við sólarhringur síðan hún lést.
Svæðið, þar sem líkið fannst, er þekktur staður hvað varðar líkfundi. Vinsælt er að losa sig við lík þar að sögn lögreglunnar. Arizona Republic skýrir frá þessu.
Lögreglan segir að Marina hafi horfið í ágúst 1989 ásamt tveimur dætrum sínum, Jasmin Maria Ramos sem var tveggja mánaða og Elizabeth Lisa Ramos sem var fjórtán mánaða.
Síðast sást til mæðgnanna í svartri bifreið. Karlmaður, af suðuramerískum uppruna, ók bifreiðinni. Aðeins er vitað að hann var kallaður Fernando. Voru þau sögð á leið til heimabæjar Fernando, Ontario í Kaliforníu en ekki er ljóst hvers eðlis samband Fernando og Marinu var.
Lögreglan segir að ættingjar Marina haldi fast í vonina um að Jasmin og Elizabeth séu á lífi. Ef svo er þá eru þær orðnar 33 og 34 ára.
Lögreglan hefur birt teikningu af Fernando en hún reynir að bera kennsl á hann. Talið er að hann hafi verið í kringum fertugt þegar Marina var myrt.
Nú er unnið að rannsókn á DNA-sýnum sem fundust á líki Marina. Ekki er útilokað að hún hafi verið beitt kynferðislegu ofbeldi áður en hún var myrt.