Dagbladet segir að heimamenn hafi lengi sagt að reimt sé við laugina vegna hinna mörgu dauðsfalla þar. En í nýrri skýrslu er ljósi varpað á hina réttu ástæðu dauðsfallanna.
Skýrslan staðfestir að náttúrulegar ástæður eru að baki dauðsföllunum.
Í lauginni, sem er vinsæll baðstaður, er fallegt heiðblátt vatn, sem rennur þar í gegn af miklu afli.
En það er mikill straumur í lauginni og ef fólk er svo óheppið að lenda í honum getur það dregið það niður á átta metra dýpi, í helli sem er þar. Þegar þangað er komið er nánast útilokað að sleppa þaðan.
Þarna niðri er mikið afl og þrýstingur sem heldur fólki niðri, ef það er svo óheppið að berast þarna niður, og gerir því nánast ókleift að synda upp á yfirborðið. Skiptir þá engu þótt fólk sé gott sundfólk, í björgunarvesti eða mjög sterkt. Það má sín ekki mikils gegn náttúruöflunum þarna.