Sushi er gríðarlega vinsælt í Japan enda þjóðarrétturinn þar í landi. Nú er lögreglan að rannsaka grafalvarleg mál þar sem myndbandsupptökur sýna viðskiptavini á sushi-veitingastöðum eiga við matinn og hrekkja aðra gesti. Upptökurnar voru birtar á samfélagsmiðlum að sögn The Guardian.
Málið hefur haft þau áhrif að verð hlutabréfa í kaitenzushi-keðjunni hefur hríðfallið og eigendur sushi-staða hafa þurft að hugsa upp á nýtt hvernig þeir bera matinn fram.
Eitt alvarlegasta „sushi-hryðjuverkið“ hefur fengið um 40 milljónir áhorfa á Twitter. Á því sést unglingur sleikja toppinn á opinni sojaflösku og alla brún tebolla áður en hann setur þetta aftur á sinn stað í hillunni.
Eins og þetta sé ekki nógu alvarlegt þá sést hann einnig sleikja fingur sinn og snerta síðan tvo sushi-bita með honum þegar þeir runnu fram hjá honum á færibandinu á veitingastaðnum.
Upptakan var gerð á einum staða Sushiro-keðjunnar. Eftir að myndbandið var birt á samfélagsmiðlum lækkaði verð hlutabréfa í keðjunni um 5% á einum degi.
Í öðrum myndböndum sést ófyrirleitið fólk setja wasabi ofan á sushi, sem rennur fram hjá því á færibandi, og sleikja skeið sem er notuð til að moka grænu tei upp úr dollu.
Þessi myndbönd, og fleiri álíka, hafa valdið miklum titringi í Japan og þykir fólki sem þjóðarrétturinn sé vanvirtur með þessu. En það sem þykir enn verra er sú óvirðing sem víðfrægu hreinlæti Japana er sýnt með þessu.