Washington Post segir að fentanýlneysla sé nú það sem verður flestum Bandaríkjamönnum á aldrinum 18 til 49 ára að bana.
Los Angeles Times og vísindamenn við University of California skýrðu nýlega frá því að í venjulegum apótekum í Mexíkó sé farið að skipta venjulegum verkjalyfjum út með fentanýli og selja það án þess að viðskiptavinir viti hvað þeir fá í hendurnar.
Blaðamenn Los Angeles Times fóru í apótek í nokkrum bæjum í norðvesturhluta Mexíkó til að kanna hvað þeir myndu fá í hendurnar, hvort það væri það sama og stæði á innihaldslýsingu verkjalyfjanna.
17 lyf voru keypt og voru þau öll send í greiningu á rannsóknarstofu. Af þeim reyndust 71% vera eitthvað annað en átti að vera í lyfjapakkningunum samkvæmt merkingum.
Í Tijuana reyndust verkjalyfin innihalda metamfetamín. Í Cabo San Lucas og San Jose´del Cabo reyndust þau innihalda fentanýl.
Chelsea Shover, ein af vísindamönnunum við University of California, sagðist ekki í vafa um að þetta muni kosta mannslíf.