Það var Nick Castro, sem rekur meindýraeyðinguna Nick‘s Extreme Pest Control, sem var fenginn til verksins. Á þeim tuttugu árum sem hann hefur rekið fyrirtækið hefur hann séð eitt og annað tengt meindýrum. En það sem hann upplifði nú í janúar var gjörólíkt öllu því sem hann hafði upplifað áður.
Hann birti færslu um málið á Facebook og myndir.
Vandinn sem íbúar hússins glímdu við var að þrjósk spæta hafði komið sér vel fyrir. „Fuglinn var sannkallaður hamstur,“ segir Castro og bætir við að fuglinn hafi gert göt í veggi hússins til að geyma mat í þeim.
Uppáhaldsmatur spætunnar var akörn. Þeim kom hún fyrir á sperrum og burðarbitum hússins. En því miður fyrir spætuna og íbúa hússins voru akörnin ekki kyrr þar, þau duttu ofan í holrúm í veggjunum.
Castro reiknaði með að finna nokkur akörn þegar hann gerði fyrsta gatið á einn vegginn en honum að óvörum tók þá við mikill straumur akarna út úr veggnum. Það voru bókstaflega akörn frá gólfi og upp í loft inni í veggjunum. Castro gerði göt á fleiri veggi og þegar upp var staðið höfðu 300 kíló af akörnum streymt út úr veggjunum.