Rússinn Anatoly Moskvin elskaði sögu. Hann talaði 13 tungumál, ferðaðist mikið, kenndi í háskóla, starfaði um tíma sem blaðamaður og var líka, að eigin mati, sérfræðingur í kirkjugörðum og var þekktur sem slíkur. Engum grunaði hvaða hrottalega leyndarmál hann hafði að fela.
Anatoly tengdi áhuga sinn á kirkjugörðum við atvik sem átti sér stað þegar hann var 13 ára gamall árið 1979. Hópur manna í svörtum jakkafötum viku sér að honum þegar hann var á leið heim úr skólanum. Þeir voru á leið í jarðarför 11 ára stúlku og drógu Anatoly með sér að kistu stúlkunnar og neyddu hann til að kyssa líkið.
„Ég kyssti hana einu sinni, síðan aftur og svo aftur,“ sagði hann í viðtali eitt sinn. Í kjölfarið hafi móðir látnu stúlkunnar sett giftingarhring á fingur Anatolys og sambærilegan á fingur líksins en um var að ræða einhvers konar athöfn til að tryggja látnu stúlkunni betra líf að handan.
Þarna hófst áhugi Anatolys á dauðanum, áhugamál sem átti eftir að heltaka líf hans.
Eftir þetta vandi hann sig á því að ráfa í gegnum kirkjugarða.
„Ég held að enginn í þessari borg þekki þá [kirkjugarðana] betur en ég,“ sagði hann og greindi frá því að á árunum 2005-2007 hafi hann heimsótt 752 kirkjugarða. Hann gerði með sér glósur um hvern garð og sökkti sér ofan í sögu þeirra sem voru þar jarðaðir.
Hann gaf út heimildarþætti um ferðalög sín þar sem hann fjallaði um rannsóknir sínar og þær sögur sem hann hafði grafið upp. Þessar frásagnir gaf hann út í vikulega fréttabréfi. Hann greindi jafnvel frá því að hafa sofið eitt sinn ofan í líkkistu nóttina áður en það átti að jarða manneskju í henni.
En þráhyggja hans fyrir hinum látnu náði þó lenga en nokkurn hafði grunað.
Árið 2009 fór fólk að veita því eftirtekt að gröfum ástvina þeirra hafði verið raskað. Fyrst var talið að þarna væru einhverjir öfgahópar á ferð og ákvað lögregla að setja upp eftirlit með gröfunum. Rannsóknin stóð yfir í tvö ár en bar engan árangur. Áfram var gröfum raskað og enginn vissi hvers vegna.
Það heyrði þó til tíðinda eftir hryðjuverkaárás sem átti sér stað á Domodedovo flugvellinum í Moskvu árið 2011. Þá heyrðu yfirvöld af því að grafir múslima væru vanhelgaðar í Nizhny Novrod héraðinu, þar sem Anatoly athafnaði sig. Rannsakendur fundu þar kirkjugarð þar sem einhver var að mála yfir myndir af látnum múslimum og þar var Anatoly staðinn að verki.
Átta lögreglumenn fóru að heimili hans eftir að hann var handtekinn en þeim óraði aldrei fyrir því sem þeir áttu eftir að finna þar.
Anatoly var þá 45 ára gamall og bjó með foreldrum sínum í lítilli íbúð. Þar inni fundu yfirvöld líkneski sem minntu á dúkkur. Þær voru í fallegum fötum, sumar voru farðaðar, aðra voru með andlitin þakin. En þetta voru alls ekki dúkkur heldur eins konar múmíur úr líkum látinna stúlkna.
Þegar lögreglumenn færðu til eina dúkkuna fór tónlist að heyrast og á daginn kom að Anatoly hafði komið spiladósum fyrir inn í múmíunum. Það var ekki það eina sem fannst inni í „dúkkunum“ hans. Þar hafði Anatoly líka sett persónulegar eigur og fatnað. Inni í einni múmíunni fannst hluti af legsteini stúlkunnar þar sem nafn hennar hafði verið skorið út í. Inni í annari var merkimiði af sjúkrahúsinu þar sem hún lést þar sem dánarorsök og dánardagur voru skráð. Í enn annari fannst þurrkað hjarta hennar.
Anatoly viðurkenndi að hann hefði fyllt líkin af tuskum. Síðan vafði hann nælonsokkabuxum um andlit þeirra eða bjó til dúkkuandlit á þau. Hann setti líka hnappa eða gerviaugu í augnatóftir líkana svo þær gætu horft á teiknimyndir með honum.
Hann sagðist elska „stúlkurnar sínar“ en það væru þó nokkrar dúkkur sem hefðu fallið í ónáð hjá honum.
Hann sagðist grafa upp grafir stúlknanna því hann væri einmana. Hann sagðist vera einhleypur og dreyma um að eignast börn en honum hefði ekkert orðið ágengt við að fá barn ættleitt þar sem hann þénaði ekki nóg.
Hann sagðist hafa gert það sem hann gerði því hann væri að bíða eftir þeim degi sem vísindin fyndu leið til að lífga hina látnu aftur við. Þangað til hefði hann notast við blöndu af matarsóda og salti til að varðveita líkin. Hann hélt upp á afmæli allra dúkknanna eins og um hans eigin börn væri að ræða.
Foreldrar hans sögðust ekkert hafa vitað um þetta hryllilega áhugamál hans.
„Við sáum dúkkurnar en okkur grunaði aldrei að þetta væru lík. Við héldum að það væri áhuga mál hans að búa til svona stórar dúkkur og okkur fannst ekkert að því,“ sagði móðir hans, Elvira. Síðar, eftir að Anatoly hafði verið sakfelldur sagði Elvira að henni og manni hennar hefði verið útskúfað úr samfélaginu vegna málsins og hafa þau varla litið glaðan dag síðan.
Allt í allt fundust 29 „dúkkur“ í íbúð Anatolys, en um var að ræða líkamsleifar stúlkna og kvenna á aldrinum 3-25 ára. Elsta líkið hafði Anatoly haft hjá sér í næstum því níu ár.
Anatoly var ákærður fyrir að raska grafarhelgi og var í rússneskum fjölmiðlum kallaður „Drottnari múmíanna“.
Nágrannar Anatolys fengu áfall. Þeir sögðu að Anatoly hefði verið rólegur nágranni og foreldrar hans væru indælis fólk. Vissulega hafi hrottalega lykt borist frá íbúð hans í hvert sinn sem hann opnaði dyrnar en nágrannar hefðu haldið að það væri eitthvað úr kjallaranum en slíkt væri ekki ótítt.
Anatoly játaði sök við réttarhöldin og sagði við foreldra fórnarlamba sinna „Þið yfirgáfuð stúlkurnar ykkar. Ég kom þeim heim og hlýjaði þeim“
Hann var síðar greindur með geðklofa og gert að leggjast inn á geðsjúkrahús eftir að afplánun hans lyki. Í september 2018 stóð honum til boða að halda áfram að fá meðferð við sjúkdómi sínum heiman frá.
Foreldrar stúlknanna eru þó mótfallin þeirri lausn. Ein móðirin telur að Anatoly ætti að vera lokaður inni til lífstíðar.
„Þetta skrímsli færði ótta, hrylling og kvíða inn í líf mitt. Ég skelf við tilhugsunina að hann fái frelsið til að fara hvert sem hann vill . Hvorki fjölskylda mín né fjölskyldur hinna fórnarlambanna munu geta sofið rólega. Hann þarf að sæta eftirliti. Ég fer fram á lífstíðardóm.“
Anatoly sagði víst við yfirvöld að þau ættu ekkert að hafa fyrir því að grafa stúlkurnar of djúpt ofan í jörðu þar sem hann muni hreinlega grafa þær aftur upp þegar hann fær frelsið á ný.