Í myndbandi, sem er hluti af herferðinni, sjást karlmenn þegar synir þeirra fæðast. Reynt er að draga upp þá mynd af þeim að þeir séu umhyggjusamir og viðkvæmir, sem sagt andstæður karlmannlegra staðalímynda.
„Hraði, áfengi, fíkniefni, þreyta . . . hvað ef við bætum karlmennsku við?“ Spyr franska umferðaröryggisráðið varðandi viðbót við listann yfir þá þætti sem leiða oftast til slysa á vegum landsins.
The Guardian segir að 78% þeirra sem létust í umferðarslysum í Frakklandi á síðasta ári hafi verið karlar. Af ökumönnum á aldrinum 18 til 24 ára, sem létust í slysum, voru 88% karlar.
Af þeim sem eru taldir hafa verið valdir að slysum voru 84% karlar og af ölvuðum ökumönnum, sem lentu í slysum, voru 93% karlar.
Skilaboðin í nýju herferðinni eru að karlar eru hvattir til að standa gegn félagslegum þrýstingi. „Þú þarft ekki að gera það sem fólk væntir af karlmanni,“ heyrist nýbakaður faðir segja við son sinn í myndbandinu.