Einn frægasti raðmorðingi sögunnar er án efa hrottinn hann Ted Bundy sem nam ungar konur á brott, nauðgaði þeim og myrti á áttunda áratug síðustu aldar. Hann játaði á sig 30 morð sem hann framdi í sjö ríkjum bandaríkjanna á árunum 1974-1978 en talið er að fórnarlömbin séu jafnvel enn fleiri.
Saga Bundys hefur ítrekað ratað í bækur, kvikmyndir og sjónvarpsþætti en minna er þó vitað um aðra þætti lífs hans, svo sem um kærustu hans, Elizabeth Kendall, eða Elizabeth Kloepfer.
Um samband hennar og Bundy var fjallað í myndinni Extremely Wicked, Shockingly Evil, and Vile sem var sýnd á Netflix en myndin byggir á endurminningum sem Elizabeth ritaði eftir að Ted var dæmdur til dauða.
Elizabeth kynntist Ted á bar í borginni Seattle árið 1969, á tímum hippanna þar sem ást og friður var kunnuglegt stef á djamminu. Elizabeth var þá 24 ára gömul og starfaði sem ritari og var einstæð móðir tveggja ára stúlku.
„Tengingin okkar á milli var ótrúleg,“ skrifaði Elizabeth í bók sinni, The Phantom Prince: My Life with Ted Bundy, eða Draugaprinsinn: Líf mitt með Ted Bundy.
„Ég var strax farin að skipuleggja brúðkaupið og velja nöfn á börnin okkar. Hann sagði mér að hann saknaði þess að vera með eldhús því hann elskaði að elda. Fullkominn. Draumaprinsinn minn.“
Sambandið fór vel af stað. Ted þótti afar myndarlegur, klæddi sig vel og hafði Elizabeth verið heilluð nánast um leið og hann bauð henni upp í dans kvöldið sem þau hittust fyrst. Hún vaknaði eftir fyrstu nóttina sem þau vörðu saman við að Ted var að elda fyrir hana morgunmat og virtist þetta allt vera of gott til að vera satt. Sem kom svo síðar á daginn.
Sambandið varð þó fljótt stormasamt. Ted bar til hennar sterkar tilfinningar en átti það þó til að vera heitur og kaldur gagnvart henni til skiptis.
Ted sagði í viðtali við rithöfundinn Stephen G. Michaud: „Ég elskaði hana svo mikið að það truflandi. Ég fann fyrir sterkri ást til hennar en við áttum ekki mikið af sameiginlegum áhugamálum og borð við stjórnmál og annað. Ég held við höfum ekki átt mikið sameiginlegt. Hún elskaði að lesa, ég var ekki mikið fyrir það.“
Hún lýsti því svo að hann hafi átt það til að reiðast svo snögglega að hún átti efitt með að skilja ástæðurnar þar að baki.
„Okkur samdi kannski vel eina stundina og svo skelltist hurð og ég var skilin eftir úti í kuldanum þar til Ted var tilbúinn að hleypa mér aftur inn. Ég eyddi heilu klukkutímunum í að reyna að átta mig á því hvað ég hefði gert eða sagt sem var svona sæmt. Og þá skyndilega varð hann aftur hlýr og ástúðlegur og mér fannst mín þarfnast og ég væri vafin umhyggju.“
Nokkrum mánuðum eftir að þau byrjuðu að stinga saman nefjum nefndi Elizabeth það við hann að hana langaði til að kalla hann eiginmann sinn. Þau fóru og fengu hjónavígsluvottorð á næsta dómshúsi, en Ted reif það svo nokkrum dögum síðar í rifrildi.
Árið 1972 varð Elizabeth svo ólétt.
„Við vissum bæði að það væri ómögulegt að eignast barn á þessum tíma. Hann var að fara að byrja í laganámi um haustið og ég þurfti að vinna fyrir okkur. Ég var miður mín. Ég vissi að ég væri að fara að rjúfa meðgönguna um leið og ég gæti. Ted var hinsvegar ánægður með sjálfan sig. Hann hafði getið barn.“
Elizabeth fór svo í þungunarrof.
Það var svo árið 1974 sem fréttir bárust af tvær konur á svæðinu hefðu verið myrtar og þeim nauðgað. Vitni nefndu nafnið Ted sem og bíl af gerðinni Volkswagen. Ted Bundy ók um á Volkswagen en Elizabeth átti erfitt með að trúa því að kærasti hennar hefði gerst sekur um þessi voðaverk.
Er hún reyndi að bera grun sinn undir hann var hann ávallt með skýringar á reiðum höndum og tókst að nota persónutöfra sína til að létta áhyggjum hennar. Þannig útskýrði hann hluti á borð við exi sem hún fann í bíl hans og annað. Þegar hún bar undir hann kvenmannsnærbuxur sem hún kannaðist ekki við en hafði fundið – þá hins vegar reiddist Ted og hótaði að „brjóta á þér hausinn“ ef hún segði einhverjum frá þessu.
Hann kæfði grun hennar því ekki alfarið því og í ágúst 1974 ákvað hún að svíkja hann og hringdi í lögregluna. Þar greindi hún frá því að kærasti hennar gæti verið sá maður sem lögregla leitaði að í tengslum við morðin á konunum tveimur.
Lögregla tók þó ekki mark á henni og sagði að hún yrði að koma og fylla út skýrslu. „Við höfum engan tíma til að tala við kærustur í gegnum símann“
Elizabeth ákvað þá að leggja grun sinn til hliðar.
Skömmu síðar flutti Ted til Utah vegna vinnu og hittust þau sjaldnar og fór sambandið að fjara út. Þau voru þó enn í samskiptum í gegnum bréfaskriftir og símtöl.
Aftur fóru að berast sögur af konum sem var saknað á þeim stöðum sem Ted bjó og aftur fór Elizabeth að gruna að hann væri viðriðinn málin. Hún reyndi aftur að hafa samband við lögreglu, og í þetta skiptið var tekið mark á henni og leiddi það til þess að hann var handtekinn.
„Það er eitthvað að mér. Ég réði ekki við þetta,“ sagði Ted við Elizabeth í síma eftir að hann var hnepptur í fangelsi í Flórída fyrir að hafa reynt að nema konu á brott í mars 1976. „Ég barðist við þetta í langan langan tíma en þetta varð mér yfirsterkara“
Elizabeth ákvað að spyrja Ted hvort hann hefði einhvern tímann reynt að drepa hana. Hann viðurkenndi það. Hann hafi kvöld eitt fundið fyrir yfirþyrmandi þörf til að drepa hana og reynt að kæfa hana með því að loka fyrir strompinn á heimili hennar í von um að reykurinn frá arninum myndi drepa hana.
Þau hættu svo öllum samskiptum árið 1980, en þá hafði Ted Bundy verið sakfelldur fyrir brot sín. Hann gifsti síðar Carole Ann Boone og átti með henni eitt barn.
Elizbeth dró sig í hlé og lét lítið fyrir sér fara, enda kærir hún sig ekki um sviðsljósið. Hún skrifaði því bók sína undir dulnefndinu Elizabeth Kendall og hefur að jafnaði afþakkað að koma fram opinberlega.
Þegar Netflix kvikmyndin var í framleiðslu ræddi Elizabeth við leikstjóra myndarinnar, Joe Berlinger, en hann vildi gæta þess að hún væri sátt við handritið. Hún hikaði smá en gaf svo grænt ljós. Hún var í kvikmyndinni leikin af leikkonunni Lily Collins og fékk að hitta hana fyrir tökurnar.
Elizabeth lýsir sér í bók sinni sem feiminni, óöruggri og einmana einstæðri móður sem var fráskilin að glíma við áfengisfíkn þegar hún hitti Ted.
„Ég rétti Ted líf mitt og sagði – Hérna sjáðu um mig. Og hann gerði það að vissu leyti en ég varð sífellt meira og meira háð honum. Þegar ég fann fyrir ást hans fannst mér ég hafa sigrað heiminn, þegar ég fann fyrir engu frá honum, fannst mér ég vera einskis virði,“ skrifaði hún í bók sinni.