Fundurinn snerist um „vaxandi áhyggjur af hegðun hans“ segir The New York Times.
Meðal þess sem hafði vakið áhyggjur var að Kohberger, sem er 28 ára, hafði elt eina stúdínu út úr húsi og að bíl hennar. Þetta vakti mikla vanlíðan hjá henni.
Hann hafði einnig lent í deilum við einn prófessorinn og margir nemendur höfðu kvartað undan einkunnagjöf hans en hann sinnti kennslu við skólann samhliða því að stunda doktorsnám.
Á fundinum var ákveðið að grípa til aðgerðaáætlunar en það kom að litlu gagni því hegðun Kohberger breyttist ekki.
11 dögum eftir fundinn, þann 13. nóvember, fundust fjórir stúdentar myrtir á heimili sínu í Moscow. Þetta voru þrjár konur og einn karl. Þau stunduðu öll háskólanám við Idaho-háskóla.
Í desember var Kohberger síðan rekinn úr vinnunni eftir að hafa aftur lent í deilum við prófessorinn og hann var einnig handtekinn vegna morðmálsins. Hann neitar sök.
Það voru eftirlitsmyndavélar nærri heimili stúdentanna sem skiptu sköpum varðandi handtökuna. Á þeim sést hvítur fólksbíll sem reyndist vera Hyundai Elantra. Þegar lögreglumenn skoðuðu ökuskírteinaskránna sáu þeir að útlit eiganda bifreiðarinnar passaði að hluta við þá lýsingu sem sjónarvottur hafði gefið á morðingjanum.
Lögreglumenn náðu í rusl í ruslatunnuna heima hjá foreldrum Kohberger og reyndust DNA, sem var á því, passa við DNA, sem fannst á morðvettvanginum. Það DNA fannst á hnífsslíðri sem morðinginn gleymdi á rúmi eins fórnarlambsins.
Ekki er vitað af hverju stúdentarnir voru myrtir.