Þetta er niðurstaða nýrrar rannsóknar. Hún leiddi í ljós að það að auka það svæði sem tré þekja í borgum í 30% úr þeim 14,9% sem þau þekja að meðaltali í dag, geti dregið úr dauðsföllum af völdum hita um 39,5%.
The Guardian segir að þetta sé fyrsta rannsóknin þessarar tegundar og hafi hún náð til 93 evrópskra borga. Aðalhöfundur hennar, Tamara Lungman, sagði að þetta sé að verða sífellt mikilvægara mál því hitasveiflur í Evrópu verði sífellt öfgafyllri vegna loftslagsbreytinganna.
Hún sagði vitað að hár hiti í þéttbýli hefur neikvæð áhrif á heilsufar fólks, valdi til dæmis hjartavandamálum sem kalli á sjúkrahúsinnlagnir og valdi jafnvel dauða.
Vísindamennirnir notuðu gögn um dauðsföll til að áætla hugsanlega fækkun dauðsfalla ef hitinn lækkar vegna fleiri trjáa. Miðað við tölur frá 2015 komust þeir að þeirri niðurstöðu að af 6.700 ótímabærum dauðsföllum það árið vegna hærri hita í borgum, hefði verið hægt að koma í veg fyrir 2.644 dauðsföll ef fleiri tré hefðu verið til staðar.