Lögreglustjóri La Vergne lögreglustöðvarinnar í Tennessee ríki í Bandaríkjunum hefur verið látinn taka poka sinn í kjölfar rannsóknar sem fór fram á embættinu sem sýndi fram á að hann hafi vitað af ótilhlýðilegri háttsemi starfsmanna sinna en ekkert gert í því.
Um er að ræða litla lögreglustöð sem hefur sett allt á hliðina eftir að upp komst að lögreglukonan Maegan Hall hafði átt í kynferðislegu sambandi við fjölda samstarfsmanna sinna, stundum jafnvel innan veggja lögreglustöðvarinnar og á meðan fólkið var á vakt.
Málið er ítarlega rakið í fréttinni hér að neðan en eru Maegan og sex samstarfsmenn hennar sagðir hafa sent kynferðislegar myndir sín á milli, Hall á að hafa farið úr að ofan í heitum potti í partýi og auk þess veitt tveimur lögreglumönnum munnmök á lögreglustöðinni. Þá er Hall sögð hafa montað sig af stærðinni af kynfærum eins samstarfsmanns síns en hún á að hafa haldið því fram að hún væri í opnu sambandi með eiginmanni sínum.
Sjá einnig: Kynsvall lögreglufólks dregur dilk á eftir sér – Þríleikur, pottapartý og tunguleikfimi á vinnutíma
Maegan sagði síðar að hjónaband hennar hafi verið í molum og hún því orðið örvæntingarfull.
Nú hefur rannsókn óháðs aðila á embættinu leitt í ljós að lögreglustjórinn, Burrel „Chip“ Davis var ekki bara meðvitaður um ástandið heldur reyndi einnig að afvegaleiða fyrstu rannsóknina sem fór fram í málinu.
Hann hafi heimilað og jafnvel hvatt til háttseminnar þó hún gengi gegn lögum í Bandaríkjunum.
Borgarstjórinn í La Vergne, Jason Cole, segir að hann sé afar vonsvikinn.
„Það eru ekki til orð sem lýsa þeim vonbrigðum og gremju sem ég og aðrir stjórnendur borgarinnar finnum fyrir. Lögreglumenn eiga að vera fyrirmyndir, sérstaklega lögreglustjórinn. Við tökum heilsu, öryggi og velferð allra starfsmanna La Vergne alvarlega og menning líkt og sú sem hefur verið afhjúpuð í þessum rannsóknum er óásættanleg. Við munum halda áfram að gera það sem þarf að gera til geta gert rétt við lögreglumennina okkar, starfsmenn borgarinnar og allt samfélagið okkar.“