People skýrir frá þessu og segir að samkvæmt upplýsingum frá dómsmálaráðuneytinu hafi Musbach skipst á myndum og myndböndum við unglinginn sumarið 2015. Unglingurinn var þá 13 ára og bjó í New York.
Musbach kom fyrir dóm í síðustu viku og játaði þá að hafa reynt að fá leigumorðingja til að myrða unglinginn. Hann notaði vefsíðu, þar sem lofað var að séð yrði um morð gegn greiðslu í rafmynt, til að komast í samband við leigumorðingja.
Dómsmálaráðuneytið segir að þegar foreldrar unglingsins komust á snoðir um myndasendingarnar hafi þeir haft samband við lögregluna sem handtók Musbach, sem er 31 árs, og kærði fyrir dreifingu og vörslu barnakláms.
Eftir handtökuna ákvað Musbach að láta ráða fórnarlambið af dögum til að það gæti ekki vitnað gegn honum.
Hann var í reglulegu sambandi við eiganda fyrrgreindrar vefsíðu, sem var starfrækt á djúpnetinu, og spurði meðal annars hvort fórnarlambið væri of ungt. Hann greiddi síðan 40 bitcoin, sem svaraði þá til um 20.000 dollara, fyrir morðið. Þegar hann var krafinn um 5.000 dollara til viðbótar og eftir ítrekaðar tilraunir hans til að fá upplýsingar um hvenær verkið yrði unnið, hætti hann við og bað um að hætt yrði við morðið og að hann fengi endurgreitt.
Þá sagði eigandi vefsíðunnar honum að þetta væri platsíða og að hann myndi gera lögreglunni viðvart um fyrirætlanir Musbach.