Að undanförnu hefur mikið gengið á í Stokkhólmi, skotárásir, morð og sprengjutilræði.
Nýlega var lýst yfir einhverskonar neyðarástandi í Stokkhólmi en það gerir lögreglunni í borginni kleift að fá aðstoð mörg hundruð lögreglumanna frá öðrum lögsagnarumdæmum í landinu.
En það að fjölga lögreglumönnum á götum úti hefur ekki langvarandi áhrif á glæpi tengda glæpagengjum. Þetta sagði David Sausdal, afbrotafræðingur við háskólann í Lundi, í samtali við Danska ríkisútvarpið.
Hann sagði að á síðustu tíu árum hafi afbrotum glæpagengja og ofbeldisverkum fjölgað. Ef horft sé til baka veki það ekki miklar vonir. „En maður hefur ekki þörf fyrir að sitja bara á höndunum sínum eins og hefur svolítið verið gert í Svíþjóð. Lögreglan þarf að sýna að hún taki þetta alvarlega,“ sagði hann.
Hann sagði að það muni hafa áhrif hér og nú að lögreglumönnum í borginni fjölgi og það auki öryggiskennd almennings að vita að lögreglan sé með mikinn viðbúnað á almannafæri. „En þetta er bara plástur á sárið hvað varðar það að leysa afbrot glæpagengja og það ofbeldi sem þeim fylgir. Það verður að gerast með langvarandi fyrirbyggjandi aðgerðum á félagslega sviðinu,“ sagði hann.
Lögreglunni hefur reynst erfitt að glíma við glæpagengin, meðal annars vegna þess að margir leiðtogar þeirra halda sig erlendis.
Sausdal sagði að mjög lítið hlutfall skotárása, morða og sprengjutilræða í Svíþjóð sé leyst af lögreglunni. Það sé hægt að hóta löngum fangelsisdómum en ef glæpamennirnir nást ekki, þá virki það ekki.
Hanna Paradis, hjá lögreglunni í Stokkhólmi, sagði í samtali við Expressen að lögreglan hafi skráð 52 glæpagengi og 1.500 meðlimi þeirra. Sumir sitji í fangelsi og hafi hlotið einn eða fleiri dóma. Hún sagði að lögreglan verði að vera enn ágengari og handtaka fleiri.
Frá jólum hafa um 20 ofbeldisverknaðir átt sér stað í og við Stokkhólm. Flestir tengjast þeir baráttu glæpagengja um yfirráð yfir fíkniefnamarkaðnum.