Mál Islu Bryson, sem áður hét Adam Graham, hefur valdið miklum usla í Skotlandi og í raun Bretlandseyjum öllum. Isla var á dögunum fundin sek fyrir tvær hrottalegar nauðganir árið 2016 og 2019 þegar hún var enn karlamaður. Þegar að kom að fyrirtöku málsins fyrir dómi kom í ljós að hinn ákærði hafði hafið kynleiðréttingaferli og skilgreindi sig nú sem konu. Isla hafði þá hafið hormónameðferð en hafði ekki undirgengist skurðaðgerð til að breyta kynfærum sínum.
Málið hefur vakið mikla athygli í Skotlandi en háværar raddir eru um að Isla hafi leikið á kerfið og hafi hafið kynleiðréttingaferlið til þess eins að afplána dóm sinn í eina kvennafangelsi Skotlands.
Daily Mail fjallar um málið en fram kemur að skoski þingkonan, Joanna Cherry, sé meðal þeirra sem hafi fordæmt þá ákvörðun að Isla fái að afplána í kvennafangelsi. „Samkvæmt skoskum lögum getur aðeins sá sem er með getnaðarlim gerst sekur um nauðgun og þetta er karlmaður. Ég hef miklar áhyggjur af öryggi kvenkyns fanga sem þurfa að afplána dóma sína með dæmdum nauðgara,“ sagði Cherry. Þá fullyrti hún að Isla hefði leikið á skoska réttakerfið.
Undir þessi orð tekur fyrrum eiginkona Bryson, Shonna Graham. Hún segist fullviss um að fyrrum eiginmaður hennar sé ekki raunveruleg kona heldur sé að hæðast að kerfinu. Hann hafi aldrei gefið í skyn né hana grunað að Bryson væri kona föst í karlkynslíkama.
Hún segist fullviss um að kvenkyns fangar séu í hættu nærri Bryson enda muni hún ekki hætta að brjóta af sér.
Eins og áður segir hefur málið vakið mikla athygli í Bretlandi og eru margir sem kenna umdeildri lagabreytingu ríkisstjórnar Nicola Sturgeon sem kvað á um það að allir yfir 16 ára aldri gætu skipt um kyn, kjósi þeir það, án þess að hafa undirgengist kynleiðréttingu.