The Guardian segir að í rannsókninni hafi komið fram að þörfin fyrir að hjálpa dýrum komi snemma fram hjá mönnum. Vísindamennirnir rannsökuðu samskipti ungra barna við vinsamlega hunda.
Í ljós kom að börn, allt niður í tveggja ára, lögðu mikið á sig til að hjálpa hundum að ná í leikföng og góðgæti sem var komið þannig fyrir að þeir gætu ekki náð því. Skipti engu að börnin höfðu aldrei áður hitt dýrin.
Niðurstöður rannsóknarinnar benda til að ungabörn skilji ekki aðeins hvað hunda langar í, þau séu reiðubúin til að hjálpa þeim og geti það og skipti þá engu máli að sáralitlar líkur séu á að hundarnir endurgjaldi greiðann.
Dr Rachna Reddy, aðalhöfundur rannsóknarinnar, sagði að það sé mjög sérstakt að sjá hversu snemma þetta byrji. Allt frá fyrstu stigum þróunar okkar höfum við tilhneigingu til hegða okkur félagslega gagnvart öðru fólki til að reyna að lesa hvað er í gangi í huga þeirra sagði hún og bætti við að nýja rannsóknin sýni að jafnvel ung börn „hafi hvatningu og getu til að teygja svona hjálpsama hegðun til annarra dýra“.
Vísindamennirnir segja að vinsamleg og hjálpsöm framkoma, jafnvel hjá ungum börnum, í garð dýra geti hafa hjálpað mönnum að þrífast og dafna um heim allan. Óeigingjarnir hlutir á borð við að skilja eftir mat fyrir dýr geti hafa ýtt undir það að menn gerðu margar dýrategundir að húsdýrum, til dæmis hunda, ketti, kýr, svín, kindur og hesta.
Reddy benti á að það að fara að halda dýr hafi skipt mjög miklu máli fyrir mannkynið og hafi auðveldað því að komast af. Þetta hafi í raun gert okkur kleift að lifa og þrífast, þetta hafi verið stór þróunarlegur ávinningur. „Af hverju við fórum að halda húsdýr er stór ráðgáta en þetta er eitt af púslunum sem gæti hjálpað okkur að leysa þá ráðgátu,“ sagði hún.