Shankar Mishra var á dögunum rekinn úr starfi sínu sem yfirmaður í skrifstofu bandaríska bankans Wells Fargo í indversku borginni Mumbai. Ástæðan fyrir brottrekstrinum er sú að Mishra er sagður hafa pissað yfir 72 ára gamla konu í miðju flugi með Air India.
Flugið sem um ræðir var frá New York til New Delhi og var Mishra á fyrsta farrými í flugvélinni. Konan sem sakar Mishra um að hafa pissað á sig segir í kvörtunarbréfi til flugfélagsins að hann hafi verið afar drukkinn. „Hann renndi niður buxnaklaufinni og pissaði á mig,“ segir hún í bréfinu.
„Hann stóð þarna svo bara áfram þar til manneskjan sem sat við hliðina á mér potaði í hann og sagði honum að fara aftur í sætið sitt, þá skjögraði hann aftur í sætið sitt.“
Konan segir að áhöfnin í fluginu hafi boðið henni að setjast í lítið sæti sem þau nota og að hún hafi setið þar í um tvo klukkutíma. Þá hafi starfsfólkið beðið hana um að setjast aftur í pissublautt sætið sitt en búið var að setja lak yfir það. Konan segist hafa neitað og ákveðið frekar að sitja í litla sætinu sem ætlað er starfsfólkinu út flugið.
Einnig er konan ósátt með að starfsfólkið hafi ekki virt beiðni hennar um að vilja ekki tala við Mishra eftir atvikið. Hún segir að hann hafi komið til sín niðurbrotin með tár á hvarmi eftir að það rann af honum. Hann hafi beðist afsökunar og grátbeðið hana um að senda ekki kvörtun vegna málsins. Konan kveðst afar ósátt með að hafa þurft að mæta Mishra aftur þar sem hún tók skýrt fram að hún vildi það ekki.
„Ég sagði honum að það sem hann gerði væri óafsakanlegt en af því ég sá hann grátbiðja mig, og því ég var í áfalli, fannst mér erfitt að krefjast þess að hann yrði handtekinn eða að kæra hann.“
Samkvæmt fjölmiðlum í Indlandi á Mishra þó að hafa verið handtekinn og ákærður fyrir athæfið. Lögfræðingur á vegum Mishra segir að búið sé að bæta 72 ára gömlu konunni upp fjárhagslega og að Mishra hafi látið þrífa föt og tösku konunnar.
Það var þó ekki bara Mishra sem var látinn fjúka úr starfi sínu vegna atvikisins en flugmaðurinn í fluginu sem um ræðir sem og fjórir aðrir meðlimir í áhöfninni hafa einnig verið reknir í kjölfar þess.