The Guardian segir að lögreglunni hafi borist ábending í nóvember um að mikið magn fornmuna væri á heimili einu í þorpinu Gata de Gorgos. Fram kom að meðal þessara muna væru einnig fornar beinaleifar. Við leit í húsinu fundust beinaleifar sem eru taldar vera á milli 4.000 og 5.000 ára gamlar. Húsráðandinn gat ekki framvísað neinum skjölum varðandi þessa muni.
Hann ákvað að starfa með lögreglunni og benti henni á heimili annars safnara í Dénia. Þar fann lögreglan 350 fornmuni, þeir elstu eru frá bronsöld, auk 200 beinaleifa.
Í tilkynningu frá lögreglunni segir að þetta sé einn mesti fjöldi ólöglegra muna sem hafa fundist hjá einum safnara í Alicante.