Dómstóll í Bandaríkjunum hefur vísað frá dómi kæru gegn tónlistarmanninum Brian Hugh Warner, betur þekktum undir listamannsnafninu Marilyn Manson, fyrir að hafa beitt þáverandi kærustu sína kynferðislegu, andlegu og líkamlegu ofbeldi. Kærastan fyrrverandi, Ashley Morgan Smithline, rak lögfræðing sinn á meðan málarekstrinum stóð og réð ekki nýjan lögfræðing fyrir þann frest sem dómstóllinn veitti henni.
Smithline hóf ástarsamband við Manson árið 2010 og á meðan tveggja ára sambandi þeirra stóð fullyrðir hún að tónlistarmaðurinn hafi beitt sig hrottalegu ofbeldi. Hefur hún sakað Manson um að hafa margsinnis brotið á sér kynferðislega, skorið hana með hakakross-skreyttum hnífi sem var henni sérstaklega þungbært í ljósi þess að Smithline er gyðingur, troðið hnefa sínum upp í munn hennar á meðan kynlífi stóð og læst hana inni í sérstöku hljóðeinangruðu herbergi „fyrir vondar stelpur“ í hvert sinn sem hún átti að hafa reitt hann til reiði.
Lögmaður Manson, Howard King, þakkaði Smithline í yfirlýsingu fyrir að hafa dregið ásakanir sínar tilbaka.
Þetta eru ekki einu ásakanirnar á hendur Mason en fyrrverandi kærasta hans, leikkonan Evan Rachel Wood, hefur einnig sakað hann um gróft ofbeldi gagnvart sér auk þriggja annarra kvenna. Í greinargerð vegna málsins sakaði Manson Wood um að stuðlað að rógsherferð gegn sér og að áskanir hinna kvennanna, sem hann gekkst við að hafa verið í sambandi við, hafi verið að undirlagi hennar en konurnar fjórar, þar á meðal Smithline, stigu fram eftir að Wood opnaði sig um málið.
Vísað hann því alfarið á bug að hafa beitt konurnar nokkurs konar ofbeldi.