fbpx
Laugardagur 20.apríl 2024
Pressan

Morðið á hinni ellefu ára Lora Ann var óleyst í tæp fjörutíu ár – Morðingi fyrir allra augum

Guðrún Gyða Eyþórs Árnadóttir
Fimmtudaginn 22. september 2022 22:00

Lora Ann Huizar.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það var á sunnudagskvöldi í nóvember 1983 að foreldrar Lora Ann Huizar fóru að hafa áhyggjur af ellefu ára dóttur sinni. Hún hafði verið í heimsókn hjá vinkonu fyrr um daginn en ekki skilað sér heim í kvöldmat eins og hún hafði lofað.

Þau höfðu samband við foreldra vinkonunnar sem sögðu Lora Ann hafa yfirgefið heimilið mörgum klukkustundum áður. Foreldrar hennar fóru út að leita hennar en þegar þau fundu ekki telpuna leituðu þau til lögreglu í heimabæ sínum, Fort Pierce í Flórída.

Lögregla hafði aftur á móti lítinn áhuga á hvarfi Lora og gerði akkúrat ekki neitt fyrir utan að hengja upp nokkur plaköt með mynd af henni.

Kannaðist við andlitið

Lögreglumaður að nafni James Howard Harrison sagðist þó þekkja andlitið, hann hefði séð þessa sömu stúlku nálægt bensínstöð fyrr um daginn. James hafði verið á vakt þennan dag og sagði ekkert óvenjulegt hafa verið í fari stúlkunnar. Hún hafi verið ein á gangi.

Lora Ann var lítil og grannvaxin en ófeiminn og fylgin sér. Fjölskylda hennar sagði útilokað að hún hefði farið upp í bíl hjá ókunnugum, hún vissi betur.

Þremur dögum síðar fannst lík Lora Ann í trjálundi, aðeins hálfan kílómetra frá heimili hennar. Henni hafði verið nauðgað og hún kyrkt til bana daginn sem hún hvarf.

Hvorki fugl né fiskur

Mennirnir sem fundu lík hennar hringdu umsvifalaust á lögreglu og var James Howard Harrison fyrstur á staðinn. Hann tók niður nöfn mannanna og sagði þeim svo að fara, þeirra væri ekki lengur þörf.  Tuttugu mínútum síðar bar loks að fleiri löggæslumenn en rannsóknin á láti Lora Anna var hvorki fugl né fiskur.

Enginn var yfirheyrður í tengslum við morðið og málinu fljótlega lokað.

Það var ekki fyrr en árið 2020, að lögregluembættið í Fort Pierce stofnaði sérstaka deild til að fara yfir óleyst mál, að rykið var dustað af morðinu á Lora Ann.

Fékk enn martraðir

Paul Taylor var settur í að rannsaka málið og var hann standandi bit á hvernig staðið hefði verið að málum. Hann hafði samband við annan mannanna sem höfðu fundið líkið. Hann mundi vel eftir þessum degi og sagðist enn fá martraðir um látnu telpuna,  37 árum síðar.

Paul trúði vart eigin eyrum þegar að maðurinn sagði engan löggæslumann hafa talað við þá félaga eftir líkfundinn, þeir hefðu eðilega verið þess tilbúnir að vera kallaðir til yfirheyrslu, en svo varð aldrei.

Maðurinn mundi hvert einasta smáatriði frá líkfundinum og Paul brá mjög við að heyra frásögn hans því hún var engan vegin í samræmi við skýrslu lögreglunnar.

Nánar tiltekið skýrslu James Howard Harrison.

Lygar og falsanir

Rannsóknin beindist nú að James, sem auk þess að vera lögreglumaður, var einnig predikari í kirkju nokkrurri í bænum. Fimm mánuðum eftir morðið á Lora Ann hafði honum verið sagt upp störfum vegna ásakana um kynferðislega misnotkun á ungum stúlkum í söfnuðinum.

Einnig höfðu þó nokkuð margar kvartanir borist frá samstarfsfólki innan lögreglunnar sem sagði hegðun hans í kringum ungar konur vera truflandi.

James Howard Harrison var þó aldrei ákærður.

James Howard Harrison er grunaður um fjölda morða.

Eftir að hafa verið bæði rekinn úr lögreglunni og söfnuðinum flakkaði James um Flórída ásamt konu sinni og börnum. Þar sem hann hafði hreina sakaskrá gat hann auðveldlega fengið störf við löggæslu þar til að hitna fór undir honum vegna óviðeigandi hegðunar. Sagði hann þá upp og flutti í annan bæ þar sem hann endurtók leikinn. Alls starfaði James innan tíu löggæsluumdæma eftir að hafa hrakist frá Fort Pierce auk þess að smjúga sér inn í kristna söfnuði hist og her, augljóslega til að komast í námunda við ungar stúlkur.

Eftir því sem Paul skoðaði málið betur var ljóst að James Howard Harrison hafði fjarlægt sönnunargögn af vettvangi, falsað skýrslur og reyndar gert allt sem hann gat til að stöðva rannsóknina á morðinu á Lora Ann Huizar.

Og með góðum árangri.

Grunaður um fjölda morða

James Howard Harrison þurfti þó aldrei að svara til saka fyrir morðið á Lora Ann þar sem hann lést 2008. Hann var grafinn upp svo unnt væri að bera DNA hans saman við sýni af líki telpunnar en í fyrra sögðust yfirvöld ekki geta sannað með afgerandi hætti að um DNA úr James væri að ræða. Lífsýni af líki Lora Ann reyndust of illa farin eftir tæpa 40 ára geymslu í rökum pappakassa í kjallara lögreglustöðvarinnar.

Lögregla er þess aftur á móti fullviss að James Howard Harrison hafi nauðgað og myrt Lora Ann. Yfirvöld grunar að hún sé þó langt frá því að vera eina fórnarlamb hans og er James grunaður um fjölda kynferðisbrota og morða víða í Flórída.

Lífsýni hans var sett í gagnabanka lögreglu og hafa fjöldi óleystra mála varðandi morð á ungum stúlkum í ríkinu verið enduropnuð í þeirri von að veita fjölskyldum þeirra einhvern frið.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Stöð 2 lækkar verð
Pressan
Fyrir 2 dögum

Varpa fram athyglisverðri kenningu um hamfararigninguna í Dúbaí

Varpa fram athyglisverðri kenningu um hamfararigninguna í Dúbaí
Pressan
Fyrir 2 dögum

Kvikmyndafyrirtæki með 21 Óskarsverðlaun á ferilskránni leggur upp laupana

Kvikmyndafyrirtæki með 21 Óskarsverðlaun á ferilskránni leggur upp laupana
Pressan
Fyrir 3 dögum

Hinir einu sönnu síamstvíburar: Kvæntust systrum og eignuðust yfir 20 börn

Hinir einu sönnu síamstvíburar: Kvæntust systrum og eignuðust yfir 20 börn
Pressan
Fyrir 3 dögum

6 ára stúlka bjargaði fjölskyldunni frá bruna – „Vaknaðu mamma“

6 ára stúlka bjargaði fjölskyldunni frá bruna – „Vaknaðu mamma“