fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Pressan

Fór á stefnumót – Við tók áralangur hryllingur – Að lokum kom óhugnanlegur sannleikurinn í ljós

Kristján Kristjánsson
Sunnudaginn 18. september 2022 06:44

Dave fór á stefnumót og við tók áralangur hryllingur. Mynd:20/20

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Haustið 2012 var Dave Kroupa, 35 ára, í vinnu á bílaverkstæði í Omaha í Nebraska, hann hafði flutt þangað nokkrum mánuðum áður. Þá kom Cari Farver, 37 ára einstæð móðir 14 ára pilts, með bílinn sinn í viðgerð. Dave leist vel á hana en þar sem hann var í vinnu og hún viðskiptavinur, fannst honum ekki viðeigandi að bjóða henni á stefnumót.

„Þegar við horfðum á hvort annað, þá var lítill neisti,“ sagði Dave í samtali við ABC News.

Hann gat ekki ýtt Cari úr huga sér og gladdist því mjög skömmu síðar þegar hann fann hana á stefnumótasíðu.

Dave var nýskilinn við barnsmóður sína en þau áttu tvö börn saman. Eftir að hafa verið í löngu sambandi var hann ekki tilbúinn í alvarlegt samband, vildi bara smá ævintýri og ekkert meira en það. Hann var hreinskilinn varðandi þetta við konurnar sem hann komst í samband við á Internetinu og þær voru margar.

„Ég vissi ekki hvernig ég átti að bera mig að við að komast aftur inn á stefnumótasviðið. Mér fannst ég svo ryðgaður. Þess vegna notaði ég Internetið,“ sagði hann í samtali við ABC News.

Hann bauð Cari á stefnumót og þáði hún boðið. Strax eftir fyrsta stefnumótið færðist hiti í leikinn. Hann bauð henni með heim og rómantíkin hélt áfram. Áður en kvöldið var úti sagði Cari að hún vildi vera alveg hreinskilin og sagði honum að hún væri ekki reiðubúin í alvarlegt samband. „Þá fannst mér ég hafa unnið í lottói,“ sagði Dave síðar.

Flutti inn

Þau héldu áfram að hittast og leið vel saman. Svo vel að Dave bauð Cari að búa hjá honum í skamman tíma. Hún hafði fengið stórt verkefni við forritun og vinnudagarnir voru langir. Hún bjó í klukkustundar akstursfjarlægð, í Iowa, en íbúð Dave var rétt hjá skrifstofunni hennar. Hún gat því sloppið við langar ökuferðir.

Að morgni 13. nóvember 2012 fór Dave í vinnu en áður kyssti hann Cari bless. Hann sagðist koma heim seinnipartinn.

Cari. Mynd:ABC News

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Um hádegisbil fékk hann sms frá Cari sem spurði hvort þau ættu að fara að búa saman. Dave varð hissa. Þau höfðu aðeins verið saman í tvær vikur og hann taldi að þau væru bæði á því að þetta væri ekkert alvarlegt, bara smá ævintýri. Gat hugsast að boð hans um að hún væri hjá honum vegna verkefnisins hafi sent henni röng merki?

Hann svaraði strax og hafnaði þessu.

„Frábært. Ég hata þig. Ég er að hitta aðra menn. Ég vil ekki hitta þig aftur. Haltu þig frá mér,“ var svarið sem hann fékk í sms skilaboðum.

Dave var brugðið vegna viðbragða hennar. „Það var mikið blótað. Ég vissi ekki hverju ég átti að trúa. Þetta kom mér algjörlega í opna skjöldu,“ sagði hann.

Kaffærður í skilaboðum

Þegar Dave kom heim síðdegis þennan sama dag var Cari búin að pakka föggum sínum niður og farin. Tveimur dögum síðar byrjaðu textaskilaboð að berast í síma hans.

„Ég hata þig.“

„Þú eyðilagðir líf mitt.“

„Þú ert hræðileg manneskja.“

Var meðal þess sem Cari skrifaði.

Dave áttaði sig á að ekki væri allt í lagi með hana og var honum eiginlega létt yfir að uppgötva það svona snemma. Nú var hann bara ánægður með að vera laus við hana.

En svo auðveldlega slapp hann ekki. Næstu daga og vikur fjölgaði skilaboðasendingunum. Þau voru allt frá því að vera ógnandi til þess að vera ástúðleg og örvæntingarfull.

„Ég mun gera allt sem ég get til að láta þig þjást.“

„Við eigum að vera saman Dave.“

„Ég hata þig svo mikið að mig langar að stinga hníf í hjarta þitt.“

Var meðal þess sem sagði í skilaboðunum. Hann byrjaði einnig að fá tölvupóst frá henni og símtöl.

„Ég fékk oft 60 textaboð og 100 tölvupósta á sólarhring. Það var ekki óalgengt. Og mörg hundruð símhringingar. Ég skipti svo oft um símanúmer að það var fyndið,“ sagði Dave í samtali við 20/20 og bætti við að augljóst hafi verið að Cari njósnaði um hann. „Eitt sinn sat ég í hægindastólnum mínum, með fæturna uppi á borði og var að horfa á sjónvarpið. Þá fékk ég textaboð: „Ég sé þig, þú situr í stólnum þínum með fæturna uppi á borði og ert í blárri skyrtu.“ Það passaði.

Fleiri fórnarlömb

En Cari lét ekki nægja að ofsækja Dave. Shanna Golyar, einstæð móðir hafði farið á nokkur stefnumót með Dave rétt áður en hann hitti Cari. Þau höfðu kynnst í gegnum stefnumótasíðu.

Cari og Shanna hittust einu sinni. Þá var Cari á leið út úr íbúð Dave og Shanna var á leið inn til að sækja eigur sínar.

Cari virtist hafa bitið í sig að það væri Shanna að kenna að samband hennar við Dave gekk ekki upp. Hún byrjaði að hafa í hótunum við Shanna, bæði beint og í gegnum Dave. „Hún er feit belja. Kannski vill hún gera okkur greiða með því að fremja sjálfsmorð,“ skrifaði hún til Dave.

Dave og Shanna. Mynd:Lögreglan

 

 

 

 

 

Shanna fékk textaboð og tölvupósta með aðvörunum um að hún skyldi halda sig frá Dave ef hún vildi ekki verða fyrir meiðslum. Tilkynning um andlát hennar dúkkaði einnig upp og á bílskúr hennar var úðað „Hórans hans Dave“. Þá fékk hún nóg og kærði til lögreglunnar.

Amy Flora, fyrrum eiginkona Dave og barnsmóðir, fór einnig að fá hótanir frá Cari og það sama gerðu aðrar konur sem hann hafði átt í sambandi við.

Kveikti í húsinu

Þessar ofsóknir byrjuðu að taka á Dave. Skemmdarverk voru unnin á heimili hans og bílaverkstæðinu. Cari sendi einnig skilaboð um að hún ætlaði að brjótast inn heima hjá honum þegar hann væri að heiman.

Tveimur mánuðum eftir að ofsóknirnar hófust sá hann bíl Cari í stæði nærri heimili hans. Lögreglan rannsakaði bílinn, sem var nýþrifinn, og fann fingraför á tyggjópakka. Þau voru ekki af Cari eða neinum í gagnagrunni lögreglunnar. Dave hafði margoft kært Cari en lögreglunni hafði ekki tekist að hafa uppi á henni.

Ofsóknirnar fóru einnig að verða alvarlegri. Dave fékk tölvupóst með ljósmynd af konu sem var bundin og var í skottinu á bíl. Cari skrifaði að hún ætlaði að drepa Shanna. Dave hringdi strax í hana til að kanna hvort allt væri i lagi hjá henni. Það reyndist vera svo en honum var illa brugðið.

Bíll Cari. Mynd:Lögreglan

 

 

 

 

 

 

 

Í ágúst 2013, níu mánuðum eftir að ofsóknirnar hófust var kveikt í húsi Shanna um miðja nótt. Tilviljun réði því að hún og börnin hennar voru ekki heima þessa nótt. Öll gæludýrin þeirra drápust í eldinum.

„Ég ætla ekki að ljúga, það var ég sem kveikti í húsi hórunnar. Ég vona að hún og börnin hafi dáið í eldinum,“ skrifaði Cari til Dave.

Tóku saman á nýjan leik

Ofsóknirnar tóku mjög á Dave og Shanna og það endaði með að þau tóku saman á nýjan leik, fundu stuðning hjá hvort öðru.

„Það var mjög algengt að þegar við sátum saman í sófanum og horfðum á sjónvarpið þá byrjaði textaboðum og tölvupóstum frá Carli að rigna yfir okkur,“ sagði Dave.

Eftir tveggja og hálfs árs ofsóknir gat Dave ekki meira. Hann glímdi við kvíða og þunglyndi og það kom niður á vinnunni hans og lífsgæðum. Hann sagði upp starfi sínu og flutti í næsta ríki í þeirri von að nú myndi ofsóknunum linna. En það gekk ekki eftir.

Lögreglunni hafði ekki tekist að hafa upp á Cari þrátt fyrir allar kærurnar í gegnum árin. Fjölskylda hennar náði heldur ekki sambandi við hana.

Hún hafði sagt móður sinni, Nancy Raney, og Max syni sínum, að hún myndi vera fjarverandi í nokkra daga í tengslum við vinnu og að hún ætlaði að gista hjá Dave. En nokkrum dögum síðar fór fjölskyldan að fá undarleg skilaboð frá henni. Hún sagðist vera búin að segja upp í vinnunni og væri flutt til Kansas. Hún bað um að fá að vera í friði og sagðist myndu sækja Max þegar hún teldi sig tilbúna til þess.

Skilaboð sem Nancy sendi Cari. Mynd:20/20

 

 

 

 

 

 

Hún svaraði aldrei þegar fjölskylda hennar hringdi í hana. En hún sendi móður sinni og Max skilaboð reglulega í gegnum Facebook. Nancy fannst textinn undarlegu því Cari hafði alltaf passað vel upp á stafsetningu en núna voru textarnir hennar fullir af villum.

Tilkynnti hvarf hennar

Þegar Cari mætti ekki í brúðkaup bróður síns, afmæli Max eða til útfarar föður síns tilkynnti Nancy um hvarf hennar til lögreglunnar. Hún sagði að Cari hefði glímt við geðhvarfasýki þegar hún var um tvítugt. Lögreglan taldi ekki ólöglegt fyrir fullorðna konu að slíta tengslin við fjölskyldu sína og aðhafðist lítið.

Cari. Mynd:ABC News

 

 

 

 

 

 

 

Nancy fannst lögreglan ekki taka málinu alvarlega og skipti engu hversu oft hún bað um aðstoð.

Í hvert sinn sem hún fékk textaboð frá Cari grátbað hún hana um að hringja en það gerði hún ekki.

Málið tekur nýja stefnu

2015, þremur árum eftir að Cari byrjaði að ofsækja Dave og fleiri, tóku nýir lögreglumenn við rannsókn málsins. Þetta voru þeir Ryan Avis og Jim Doty. Það vakti strax athygli þeirra að Cari hafði ekki hreyft við bankareikningi sínum síðan hún hvarf.

„Það er ekki eðlilegt að fólk stingi bara af frá öllu og noti aldrei peninga. Enginn sér það eða heyrir í því. Þetta passaði ekki. Cari var með góð laun, gott hús. Ég komst að þeirri niðurstöðu að það væri ekki hægt að sanna að hún væri enn á lífi,“ sagði Avis í samtali við ABC News.

Eitt nafn kom í sífellu upp í tengslum við rannsóknina, Shanna Golyar. Lögreglumönnunum fannst undarlegt að manneskja, sem hafði aldrei átt neitt saman að sælda við Cari, hefði skyndilega orðið að þráhyggju hjá henni.

Lögreglan vissi að skilaboðin virtust ekki koma frá Cari. Cari, eða hver sá sem þóttist vera hún, hafði sent Dave 15.000 tölvupósta á þremur árum og 25.000 til 50.000 textaboð á sama tíma. Viðkomandi varð sífellt betri í að leyna IP-tölu sinni og því hver var að verki.

Þegar lögreglan rannsakaði farsíma Shanna kom eitt og annað áhugavert í ljós. Meðal annars ljósmyndir af bíl Cari. Einnig kom í ljós að myndin af konunni, sem var bundin og í skotti bifreiðar, var tekin með farsíma Shanna.

Shanna. Mynd:Lögreglan

 

 

 

 

 

 

 

Tugir netfanga með mismunandi útgáfum af nafni Cari voru skráðir í síma Shanna. Þess utan notaði hún app sem gerði henni kleift að stilla skeytasendingar fram í tímann. Það gat skýrt af hverju hún og Dave fengu skilaboð á sama tíma.

„Þetta opnaði fyrir möguleika á að fá skilaboð frá Cari á meðan hún sat við hlið Dave. Út frá hans sjónarhorni gat Shanna ekki hafa sent þá því hún sat við hliðina á honum allan tímann,“ sagði Avis.

Lögreglan komst að þeirri niðurstöðu að Shanna eyddi allt að 50 klukkustundum á viku í að látast vera Cari. Þetta var í raun fullt starf hjá henni.

Seinna kom í ljós að fingrafarið, sem fannst á tyggjópakka sem var í bíl Cari, var af Shanna.

Skotin í fótinn

Í desember 2015 kærði Shanna barnsmóður Dave, Amy Flora, fyrir ofsóknir. Hún sagðist telja að hún hafi staðið á bak við þessar áralöngu ofsóknir en ekki Cari.

„Eins og ég hef sagt áður þá voru þau bara saman í tvær vikur og ég skil ekki af hverju hún ætti að ofsækja hann í þrjú ár eftir það. Ég held að það sé rökréttara að það sé barnsmóðir hans sem er hin seka,“ sagði hún í yfirheyrslu.

En hún talaði einnig af sér í yfirheyrslunni. Hún sagðist vita að skammbyssa, sem Dave hafði keypt til að geta varið sig gegn Carli, hefði verið stolið nýlega. Hún sagðist telja að Amy hefði stolið byssunni. En það voru aðeins lögreglan og Dave sem vissu af byssuþjófnaðinum á þessum tímapunkti.

Shanna. Mynd:Lögreglan

 

 

 

 

 

 

 

 

„Hún áttaði sig fljótt á að hún hafði ekki átt að vita neitt um byssuna. Hún gaf loðin svör við spurningum um vopnið,“ sagði Avis.

Hversu ótrúlegt sem það má virðast þá lenti Shanna í alvarlegum atburði daginn eftir. Hún var skotinn í fótinn þegar hún fékk sér kvöldgöngu í almenningsgarði. Hún sagði lögreglunni að hún teldi að Amy hefði staðið á bak við árásina.

„Mér fannst mjög grunsamlegt að daginn eftir að hún fann sig knúna til að segja mér frá skammbyssu Dave var hún skotin. Fljótlega var því slegið föstu að líklega hefði Shanna skotið sig sjálfa,“ sagði Avis.

Ginnt í gildru

Lögreglan gerði nú áætlun um hvernig væri hægt að fá Shanna til að koma upp um sig. Hún lagði hart að lögreglunni að handtaka Amy og lét lögreglan sem hún tryði því sem Shanna sagði. Var Shanna sagt að lögregluna skorti sönnunargögn til að fá Amy dæmda og var hún síðan spurð hvort hún gæti aðstoðað við að fá Amy til að koma upp um sig?

Shanna beit strax á agnið og var til í verkefnið. Næstu daga fékk hún tölvupósta sem virtust vera frá Amy. Í þeim „játaði“ hún að hafa skotið Shanna og að hafa stungið Cari margoft í bíl hennar áður en hún losaði sig við lík hennar.

„Smáatriðin nístu í gegnum merg og bein því lýsingarnar voru svo myndrænar. Tölvupóstarnir bentu til að morðvettvangurinn væri bíll Cari,“ sagði Doty síðar.

Lögreglan rannsakaði bíl Cari á nýjan leik og fann blóð úr henni.

Blóð fannst í bíl Cari. Mynd:Lögreglan

 

 

 

 

 

 

Shanna var handtekin en þvertók fyrir að hafa átt hlut að máli. Hún sagðist ekki einu sinni vera með nettengingu í íbúð sinni. Við leit heima hjá henni fann lögreglan fullt af munum í eigu Cari, meðal annars stafrænu myndavélina hennar. Á henni var upptaka þar sem Cari sagði að einhver hefði unnið skemmdarverk á bíl hennar. Upptaka var gerð tveimur dögum áður en hún hvarf.

Skömmu áður en réttarhöldin hófust sagði Dave lögreglunni að hann væri með gamlan iPad sem hefði verið settur í geymslu. Minniskortið í honum hafði áður verið í síma Shanna. Búið var að eyða mörg þúsund ljósmyndum af því en lögreglunni tókst að endurheimta þær allar.

„Ég fann mynd sem enginn hafði áður séð. Í fyrstu var ég ekki viss um hvað var á henni en það reyndist vera húðflúraður fótur,“ sagði lögreglumaður sem vann að rannsókn málsins.

Húðflúrið var af kínversku tákni sem þýðir „mamma“. Þetta var húðflúr sem var á fæti Cari.

„Mér brá mjög. Ég áttaði mig á að Shanna hafði drepið Cari og tekið myndir af líki hennar,“ bætti lögreglumaðurinn við.

Dómurinn

Þegar málið var tekið fyrir dóm dró saksóknari upp mynd af Shanna sem „grimmri konu“ sem hafði drepið Cari af því að hún taldi hana keppinaut um Dave. Síðan hafi hún ofsótt fólk árum saman.

Shanna hélt því fram að lögreglan hefði engar haldbærar sannanir fyrir þessu og að þess utan væri hún fórnarlamb í málinu.

En enginn trúði henni.

2017 var hún dæmd í ævilangt fangelsi fyrir morðið á Cari.

Lík Cari fannst aldrei. Kenning lögreglunnar er að Shanna hafi sett lík hennar í ruslapoka og hent í ruslagám og það hafi síðan verið brennt.

Byggt á umfjöllun Daily Mail, ABC News, Casefile, 20/20, Datelina og fleiri miðla.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 2 dögum

Móðir ákærð – Hótaði barnsföður sínum að birta klámfengið efni

Móðir ákærð – Hótaði barnsföður sínum að birta klámfengið efni
Pressan
Fyrir 2 dögum

Norður-Kórea er betur undirbúin undir stríð en nokkru sinni áður

Norður-Kórea er betur undirbúin undir stríð en nokkru sinni áður
Pressan
Fyrir 3 dögum

Fundu bát sem var fullur af rotnandi líkum

Fundu bát sem var fullur af rotnandi líkum
Pressan
Fyrir 3 dögum

Kannabis er orðið að milljarðaiðnaði í Bandaríkjunum – Hvaða áhrif hefur efnið á heilsu fólks?

Kannabis er orðið að milljarðaiðnaði í Bandaríkjunum – Hvaða áhrif hefur efnið á heilsu fólks?
Pressan
Fyrir 3 dögum

Kynlífspartý, fíkniefni, Viagra og morð – Kaþólska kirkjan tengist vafasömum málum

Kynlífspartý, fíkniefni, Viagra og morð – Kaþólska kirkjan tengist vafasömum málum
Pressan
Fyrir 3 dögum

Lögreglukonan sem réðst ein til atlögu gegn stungumanninum í Sydney – „Ég var bara að vinna mína vinnu“ – Nýjar upplýsingar um morðingjann vekja óhug

Lögreglukonan sem réðst ein til atlögu gegn stungumanninum í Sydney – „Ég var bara að vinna mína vinnu“ – Nýjar upplýsingar um morðingjann vekja óhug