fbpx
Miðvikudagur 05.október 2022
Pressan

Martröð á opnu hafi – Skútan sökk og við tók barátta upp á líf og dauða

Kristján Kristjánsson
Sunnudaginn 14. ágúst 2022 06:00

Fimmmenningarnir berjast fyrir lífi sínu. Mynd:I Shouldn't Be Alive

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í október 1982 sigldi fimm manna áhöfn skútunnar Trashman út frá Maine í Bandaríkjunum og var stefnan tekin á Flórída. Þetta var 17 metra löng skúta. Áætlaður siglingatími var sex dagar ef veðrið væri hagstætt.

En veðrið var allt annað en hagstætt og við tók fimm daga hryllingur.

Í fyrstu rann skútan átakalaust í gegnum sjóinn. Hún náði góðri ferð og hélt áætlun. Fimmmenningarnir skiptust á að stýra. Þau höfðu mismikla reynslu af siglingum en öll höfðu þau þó siglt áður.

Meðal fimmmenninganna var Deborah Scaling Kiley. Þrátt fyrir að vera aðeins 24 ára var hún mjög reynd í siglingum. Nokkrum árum áður hafði hún fyrst bandarískra kvenna lokið Withbread Round the World Race.

Hún vissi vel hvað það var að sigla og hún þekkti hætturnar. En hvorki hún né hinir í áhöfninni höfðu hugmynd um hætturnar sem biðu úti við sjóndeildarhringinn. Svo mikið óveður að strax fyrstu nóttina hófst barátta þeirra upp á líf og dauða.

Trashman. Mynd:Life Daily

 

 

 

 

 

 

Þegar óveðrið brast á var áhöfnin farin í koju. Meg, sem var reynsluminnst, fór upp á dekk eftir að óveðrið var brostið á. Þá lyfti stór alda skútunni hátt og síðan skall hún harkalega niður. Þá missti Meg fótfestuna og lenti mjög illa á dekkinu.

Deborah og hin hjálpuðu henni niður í káetuna og könnuðu áverka hennar. Það blæddi úr fæti og hún var mikið slösuð. „Ég fór að verða óróleg. Bara aðeins. Brad og ég fórum upp á dekk til að taka næstu vakt og óveðrið var algjörlega stjórnlaust,“ sagði Deborah síðar.

Skipstjórinn, John, var einnig órólegur. Hann var unnusti Meg og hafði áhyggjur af henni og óveðrinu sem kastaði skútunni fram og til baka. Hann hafði samband við strandgæsluna og bað um aðstoð. Honum var sagt að tvö stór skip væru nokkuð nærri Trashman og væru á leið til aðstoðar. „Þetta veitti okkur smá von um öryggi og var kannski dauðakossinn,“ sagði Deborah síðar.

Dagur 1

Um miðja nótt í miðju óveðrinu stöðvaðist vél skútunnar og talstöðin hætti að virka. Nú gat skútan ekki lengur ráðið við óveðrið. Áhöfnin gat ekki gert neitt annað en beðið eftir að veðrinu slotaði eða að aðstoð bærist.

„Þegar það er dimmt og það er rosalegt óveður, þá ertu hræddari en nokkru sinni. Það er skrímsli í myrkrinu sem þú veist að kemur. Það er hræðilegt,“ sagði Deborah.

En óveðrið lægði ekki og að lokum lyftist skútan svo hátt upp að hún brotnaði þegar hún skall aftur niður. „Við vorum að sökkva og við sukkum hratt,“ sagði Deborah.

Fimmmenningarnir berjast fyrir lífi sínu. Mynd:I Shouldn’t Be Alive

 

 

 

 

 

 

Áður en hún vissi af tróð hún marvaða í ólgandi sjó í myrkri. Hin fjögur voru hjá henni og lítill gúmmíbátur sem þeim hafði tekist að losa.

Björgunarbáturinn var horfinn. „Í honum var allt sem við þörfnuðumst til að lifa, til að við gætum lifað af. Þar voru veiðigræjur, neyðarblys og ekki síst tæki sem gat breytt sjó í ferskvatn. Í gúmmíbátnum var nákvæmlega ekkert. Líkurnar á að við myndum lifa af voru nákvæmlega núll,“ sagði Deborah síðar um stöðuna sem upp var komin.

Dagur 2

Gúmmíbáturinn var svo lítill að þau urðu að skiptast á að vera um borð í honum til að hvílast. Á meðan urðu hin að hanga utan á honum og halda sér fast.

Deborah sagði að Mark hafi hvað eftir annað sagt við hana: „Hættu að sparka í mig“ þegar þau ríghéldu sér í bátinn. „En ég var ekki að sparka í hann. Ég leit niður í sjóinn til að sjá hvar fætur hans voru, til að ég gæti haldið mig eins langt frá þeim og mögulegt var. Þá streymdi óhugnanleg tilfinning í gegnum mig. Ég sá þessa tundurskeytalaga líkama. Fyrst hélt ég að þetta væru fiskar en svo kom einn þeirra nær og þá áttaði ég mig á þessu. Þetta voru hákarlar! Hákarlar í hundraðatali. Þeir voru alls staðar. Það voru uggar út um allt.“

Mynd úr safni.

 

 

 

 

 

 

Blóðið sem rann úr opnum sárum Meg hafði dregið hákarlana að. Nú syntu þeir í kringum bátinn í von um að fá eitthvað að éta. „Ég hef aldrei á ævinni séð svona marga hákarla. Þetta var hræðilegasta tilfinning lífsins,“ sagði Deborah.

Skelfing greip um sig hjá fimmmenningunum sem urðu nú að sitja þétt saman í gúmmíbátnum.

Nú fór þorstinn að sækja á. Þau höfðu ekki fengið neitt að drekka í rúman sólarhring.

Dagur 3

Hákarlarnir héldu sig alltaf nærri bátnum. Þeir syntu hringi í kringum hann og fimmmenningana. „Það var alltaf uggi einhvers staðar. Þegar við héldum að þeir væru farnir, birtust þeir aftur,“ sagði Deborah.

Reiði sótti að þeim. Hvar var strandgæslan? Hvar voru skipin tvö sem áttu að vera á leið til aðstoðar?

Meg spurði hvort það gæti ekki verið að gúmmíbátinn ræki í átt að landi en í raun rak hann frá landi, í átt að opnu hafi.

Ástand Meg var mjög alvarlegt á þessum tímapunkti. Hún var með opin sár og sýking var byrjuð að koma í þau. „Það var augljóst að hún var að fá blóðeitrun. Við sátum þarna og sáum að hún var að deyja fyrir framan augun á okkur,“ sagði Deborah.

Deborah, fyrir miðju, hélt áfram að sigla eftir hremmingarnar.

 

 

 

 

 

Meg fór að fá ofskynjanir og það sama gerðu sum af hinum. Vatnsskorturinn var að gera þau brjáluð. Að lokum réðu John og Mark ekki við þorstann og gerðu það sem ekki má gera: Drukku sjó.

„Ég vissi að saltur sjórinn myndi eyðileggja nýrun þeirra og auka á ofþornunina og láta þá fá enn meiri ofskynjanir,“ sagði Deborah.

Það gekk eftir því eftir nokkrar klukkustundir var augnaráð þeirra orðið dýrslegt. Þeir öskruðu og reyndu hvað eftir annað að snerta hákarlana. „Þetta var eins og að vera viðstödd klikkað leikrit,“ sagði Deborah.

John hrópaði skyndilega að hann sæi land en það var auðvitað ofskynjun. Þau voru úti á miðju hafi. Síðan sagðist John ætla að sækja bílinn sinn og skyndilega hoppaði hann út úr bátnum.

Hin gátu ekki gert neitt. Þau sáu hákarlana nálgast hann. „Skyndilega heyrðum við skelfingaröskur og síðan var þögn. Við grétum ekki. Það var bara algjör þögn. Hann var horfinn og við vorum ekki í neinum vafa um hvað hafði gerst. Hákarlarnir höfðu tekið hann,“ sagði Deborah um þetta.

Dagur 4

Á fjórða degi hélt klikkunin áfram. Miklar ofskynjanir sóttu á Mark. Hann talaði um að fara í búð að kaupa sígarettur. Deborah sagði að hún og Brad hafi rætt um að þetta hljómaði heimskulega hjá Mark. Skyndilega stökk hann í sjóinn og hákarlarnir komu æðandi að honum. Hann náði ekki einu sinni að synda frá bátnum áður en fyrsti hákarlinn læsti tönnunum í hann og síðan komu fleiri.

„Hákarlarnir átu hann beint undir okkur. Þetta var án vafa það hryllilegasta sem ég hef upplifað,“ sagði Deborah.

Nú voru hákarlarnir komnir á bragðið með það sem þeir höfðu elt í langan tíma. Mannakjöt.

Þeir urðu sífellt ágengari og réðust á gúmmíbátinn.

Þegar þeir höfðu róast beindu Deborah og Brad athygli sinni að Meg. Hún sat hinum megin í bátnum og enginn vafi lék á að hún var við dauðans dyr. Hún var með ranghugmyndir, reyndi að ráðast á Brad og fálmaði út í loftið.  „Það var mjög augljóst að hún talaði tungum. Hún var að deyja. Hún var við dauðans dyr,“ sagði Deborah.

Dagur 5

Deborah hafði rétt fyrir sér. Við sólarupprás á fimmta degi var Meg dáin. Brad og Deborah vissu að þau urðu að losa sig við líkið. En þau hikuðu. Þau voru hrædd við hákarlana sem fylgdu bátnum enn.

Þeim fannst líka undarlegt að henda ungri konu, sem þau þekktu og elskuðu, í sjóinn. Þau ákváðu að afklæða hana og taka alla skartgripina af henni til að láta fjölskyldu hennar fá.

Eftir að þau höfðu ýtt líkinu út úr bátnum lögðust þau til svefns því þau vildu ekki sjá hákarlana tæta líkið í sig.

Skyndilega sagði Brad: „Debbie! Það er skip!“

Brad og Deborah veifa á hjálp. Mynd:I Shouldn’t Be Alive

 

 

 

 

En Deborah fagnaði ekki. „Ég hafði heyrt „Það er skip“ svo oft að mér var alveg sama. Já, ókei, það er kannski skip en það sér okkur ekki. En þá sagði hann: „Sjáðu hvað það er nálægt“. Og ég sneri mér við, það var frábært,“ sagði hún.

Stórt flutningaskip var að sigla fram hjá þeim. Það var svo nálægt að þau sáu mann á dekkinu og þau sáu að hann sá þau. Hann veifaði þeim og þau veifuðu honum.

Í örvæntingu sinni stukku þau bæði í sjóinn í vonum að geta náð skipinu.

Mynd sem áhöfn sovéska skipsins tók af Deborah og Brad í gúmmíbátnum.

 

 

 

 

 

 

 

Áhöfnin kastaði björgunarhring til þeirra og með síðustu kröftum sínum tókst þeim að halda nægilega fast í hann og lengi til að hægt væri að draga þau um borð. Það var áhöfn sovésks flutningaskips sem hafði bjargað þeim.

Fimm daga martröð var lokið.

Eftirmáli

Deborah gerðist rithöfundur og fyrirlesari eftir þetta. Hún lést 2012, 54 ára að aldri.

Brad Cavangh lifði þrekraunina einnig af.

Mark Adams, John Lippoth og Meg Monny létust.

Á þessum fimm dögum rak gúmmíbátinn 225 kílómetra út á opið haf. Ef áhöfn sovéska flutningaskipsins hefði ekki séð þau hefðu Deborah og Brad líklegast látist.

Brad hélt áfram að sigla eftir hremmingarnar.

 

 

 

 

 

Strandgæslan sagði síðar að á meðan óveðrið geisaði hefði henni borist símtal þar sem sagt var að Trashman hefði náð í höfn heilu og höldnu. Af þeim sökum var ekki leitað að skútunni. Ekki er vitað hver hringdi.

Byggt á umfjöllun Life Daily og myndinni I Shouldn’t Be Alive.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 2 dögum

„Ódýr“ jólagjöf foreldranna til barnanna sló svo sannarlega í gegn

„Ódýr“ jólagjöf foreldranna til barnanna sló svo sannarlega í gegn
Pressan
Fyrir 2 dögum

Bragðið af grænkáli fær ófædd börn til að gretta sig

Bragðið af grænkáli fær ófædd börn til að gretta sig
Pressan
Fyrir 3 dögum

Ný norræn rannsókn – Umhverfið hefur meiri áhrif en erfðir hvað varðar ristilkrabbamein

Ný norræn rannsókn – Umhverfið hefur meiri áhrif en erfðir hvað varðar ristilkrabbamein
Pressan
Fyrir 3 dögum

Telja að það séu 2,5 milljónir maura á hvern einasta jarðarbúa

Telja að það séu 2,5 milljónir maura á hvern einasta jarðarbúa
Pressan
Fyrir 4 dögum

Telja sig hafa fundið líkamsleifar drengsins 58 árum eftir morðið

Telja sig hafa fundið líkamsleifar drengsins 58 árum eftir morðið
Pressan
Fyrir 4 dögum

Særðust í skotárás í Svíþjóð

Særðust í skotárás í Svíþjóð