fbpx
Þriðjudagur 16.apríl 2024
Pressan

Ráðgátan um drenginn í tjörninni

Kristján Kristjánsson
Laugardaginn 9. apríl 2022 21:30

Teikning sem lögreglan lét gera af drengnum.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Árið 1921 fannst lík lítils drengs fljótandi í tjörn í Waukhesha County í Wisconsin. Hann var í dýrum fötum, ljóshærður, brúneygður og á aldrinum fjögurra til sjö ára. En enginn virtist sakna hans þrátt fyrir að ljós væri að hann tilheyrði einhverjum.

Drengurinn fannst að morgni 8. mars. Sagt hefur verið að samfélagið í Waukhesha hafi breyst að eilífu við þetta. Heimamenn kölluðu drenginn „Little Lord Fauntleroy“ sem er titill á skáldsögu eftir Frances Hodgson Burnett. Drengurinn átti alla samúð og kærleika íbúa bæjarins sem áttu erfitt með að skilja að hann hefði verið skilinn eftir.

Það vantaði tönn í hann og svo var að sjá að hann hefði verið sleginn á kjálkann með einhverju áhaldi. Ekki var hægt að slá því föstu hversu lengi hann hafði legið í vatninu. Hann var í grárri peysu, blússu, sokkabuxum og leðurskóm. Allt var þetta gæðafatnaður sem kostaði skildinginn.

Lögreglan hófst strax handa við leit að vísbendingum á svæðinu nærri vatninu og vonaðist til að finna eitthvað sem gæti varpað ljósi á hver drengurinn væri.

Starfsmaður O‘Laughlin Stone Company sagði hafa séð konu á gangi nærri tjörninni þann 6. febrúar. Þegar hann hafi gefið sig að henni hafi hún spurt hvort hann hefði séð lítinn dreng á svæðinu. Maðurinn sagði að konan hafi virst ráðvillt.

En konan var ekki ein á ferð að sögn mannsins. Karlmaður var í för með henni. Þau voru sögð hafa gengið um svæðið í góða stund áður en þau óku á brott án þess að segja eitt einasta orð. Þau komu aldrei aftur, ekki einu sinni eftir að líkið fannst.

Teikningu af drengnum var dreift um Miðvesturríkin. Fólk flykktist í líkhúsið til að sjá andlit drengsins í þeirri von að það gæti borið kennsl á hann, en án árangurs. Verðlaunum upp á 1.000 dollara var heitið fyrir upplýsingar sem myndu leiða til þess að morðingi hans fyndist. En enginn gaf sig fram.

Dánardómsstjóri komst að þeirri niðurstöðu að drengurinn hefði líklega verið dáinn þegar hann var settur í tjörnina. Ástæðan var að það var ekki nægilega mikið vatn í lungum hans til að hann gæti hafa drukknað. Dánarorsökin var talin vera högg.

Drengurinn var jarðsettur í Waukesha Prairie Home kirkjugarðinum. Þar var lítilli kistunni komið fyrir að kvöldi 14. mars. Á lokið var skrifað: „Elskan okkar“. Á legsteini hans stendur: „Óþekktur drengur sem fannst í O‘Laughlin Quarry. Waukesha, Wis. 8. mars 1921.“

Legsteinninn á gröf drengsins.

Síðar sást dökkklædd kona oft vitja grafarinnar. Stundum skildi hún blóm eftir við legsteininn. Vissi hún hver hann var? Var hann sonur hennar? Við þessu fengust aldrei svör  og enginn vissi hver konan var.

29 árum eftir að líkið fannst tók dánardómsstjóri einn eftir að kringumstæðurnar við andlát sex ára drengs, Homer Lemay, voru svipaðar. Hann hvarf skyndilega og fannst síðan í tjörn. Faðir hans, Edmond, sagði að hann hefði látist í bílslysi en engar upplýsingar um það fundust á skrá. Edmond sagði að Homer hefði farið með fjölskylduvinum til Suður-Ameríku og látist í bílslysi þar. Lögreglan kannaði þetta en fékk aldrei neina staðfestingu á að þetta væri rétt. Það dregur ekki úr dulúðinni í kringum andlát Homer að eiginkona Edmond og annar sonur hurfu á dularfullan hátt og fundust aldrei.

Homer Lemay

 

 

 

 

 

 

 

 

 

En svo aftur sé vikið að nafnlausa drengnum þá er það enn óleyst ráðgáta hver hann var. Hugsast getur að þeir sem stóðu honum næst hafi gleymt honum en íbúar í Waukesha hafa aldrei gleymt honum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Í gær

Ný rannsókn bendir til hugsanlegrar lækningar á HIV

Ný rannsókn bendir til hugsanlegrar lækningar á HIV
Pressan
Í gær

„Geimhöfuðverkur“ er vandamál sem geimfarar glíma við

„Geimhöfuðverkur“ er vandamál sem geimfarar glíma við
Pressan
Fyrir 3 dögum

Gleymd gögn frá Appologeimferðunum varpa ljósi á áður óþekkta atburði á tunglinu

Gleymd gögn frá Appologeimferðunum varpa ljósi á áður óþekkta atburði á tunglinu
Pressan
Fyrir 3 dögum

Vísindamanni er brugðið vegna niðurstöðu nýrrar rannsóknar

Vísindamanni er brugðið vegna niðurstöðu nýrrar rannsóknar
Pressan
Fyrir 4 dögum

Ofbeldisverk eru mikið vandamál í frönskum skólum

Ofbeldisverk eru mikið vandamál í frönskum skólum
Pressan
Fyrir 4 dögum

Fimm í lífshættu eftir sprengingu í Danmörku – Talið að þurrsjampó hafi komið við sögu

Fimm í lífshættu eftir sprengingu í Danmörku – Talið að þurrsjampó hafi komið við sögu