fbpx
Fimmtudagur 08.desember 2022
Pressan

Sænski fjöldamorðinginn sem engan myrti – Játaði á sig ólýsanlega grimmdarlega glæpi

Guðrún Gyða Eyþórs Árnadóttir
Miðvikudaginn 16. nóvember 2022 22:16

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Thomas Quick er nafn sem Svíar gleyma seint. Hann játaði á sig hvorki meira né minna en 39 morð, framin í Svíþjóð, Danmörk, Noregi og Finnlandi á árunum 1964 til 1993. 

Thomas Quick er fæddur Sture Ragnar Bergwall árið 1950. Sem unglingur varð hann háður fíkniefnum og framdi fjölda glæpa. Hann misnotaði unga menn kynferðislega og stakk mann árið 1974 og komst sá naumlega lífs af. 

Thomas var þá reyndar á opinni geðdeild, þangað hafði hann verið skikkaður árið 1970 og allt til ársins 1977. 

Bældar minningar

Árið 1991 framdi Thomas bankarán og var talið rétt að dæma hann til vistar á réttargeðdeild. Sama ár breytti hann nafni sínu í Thomas Quick. 

Á sjúkrahúsinu fékk Thomas ítarlega meðferð sálfræðinga og geðlækna. Ekki leið á löngu þar til Thomas fór að endurheimta bældar minningar um skelfilegt ofbeldi og misnotkun sem hann og systkini hans hefðu þurft að þola af hendi foreldra. 

Thomas sagði líka frá öllum þeim skelfilegu misþyrmingum og morðum sem hann hafði framið. 

Kvaðst hann hafa framið fyrsta morðið aðeins fjórtán ára gamall. Hefði erfið sálfræðimeðferð með hjálp sterkra lyfja vakið upp minningar um það stjórnlausa ofbeldi sem hann hefði beitt fjölda manns. 

Lögregla var kölluð til. 

Morð, pyntingar og mannát

Við yfirheyrslur játaði Thomas á sig pyntingar, nauðganir og morð. Kvaðst hann einnig hafa svívírt líkin, hlutað þau í sundur og jafnvel lagt sér til munns.

Fyrsta játningin varðað morð á 11 ára dreng árið 1980. Því næst játaði hann á sig morð á 9 ára telpu sem hann kvaðst hafa myrt og aflimað. 

Í kjölfarið hófst þá einhver umsvifamesta lögreglurannsókn í sögu Svíþjóðar og fylgdu Norðmenn fljótlega grönnum sínum eftir. 

Thomas játaði á sig 39 morð víðsvegar um Norðurlönd og tiltók 24 staði þar sem lík væri að finna. 

Dreginn um Skandinavíu

Reyndar játaði Thomas á sig hvert einasta óleysta morðmál sem lögregla spurði hann um svo og fjölda mannshvarfa. Hann játaði til að mynda morð á unglingsdreng árið 1964, jafnvel þótt að fjöldi fólks hefði vitnað fermingu hans á sama tíma, í 400 kílómetra fjarlægð. 

Lögregluyfirvöld á Norðurlöndum leituðu á öllum þeim stöðum sem Thomas tiltók. Jarðvegur var fínkembdur, kafarar leituðu í vötnum og Thomas dreginn þvers og kruss yfir Skandinavíu í von um að hressa upp á minni hans.

Var hann þráspurður um nöfn og staðsetningu líkanna og hvernig hann hefði borið sig að við hvert morð.

Dómur fellur

Játningar Thomasar voru reyndar flestar hverjar afar óljósar. Hann ruglaði saman fórnarlömbum, morðvopnum, staðsetningum og jafnvel ártölum.  Og aldrei fundust nein ummerki um glæpi, morðvopn, vitni, DNA eða önnur sönnunargögn. Hvað þá lík. 

Flesti héldu málin vart vatni en dómstólar töldu hann nógu trúverðugan til að dæma hann sekan um átta morð. Engin sönnungargögn lágu fyrir önnur en framburður Thomasar, sem dæmdur var til vistar á réttargeðdeild. 

Klúður á klúður ofan

Árið 2008 játaði Thomas í viðtali við blaðamann að hafa ekki framið eitt einasta morð. 

Fór þá í gang rannsókn sem sýndi fram á fjölda mistaka við rannsókn málsins. DNA úr sæði sem fannst á einni af hinum myrtu var ekki úr Thomasi, hann sagðist hafa myrt manneskju með exi þegar hún í reynd var skotin og í einhverjum tilfella hafði hann ekki einu sinni verið í sama landi og meint fórnarlamb. 

Thomas var einnig alvarlega veill á geði og undir áhrifum gríðarlega sterkra lyfja við yfirheyrslur þar sem hann var mataður af upplýsingum og mögulegum málavöxtum sem hann jánkaði.  Sálfræðingar hans og læknar fengu líka skot á sig vegna þess sem munir vildu meina blinda trú á réttmæti bældra minninga.  

Eftir fimm ára rannsókn var Thomas Quick/Sture Ragnar Bergwall hreinsaður af öllum morðdómum og allar ákærur látnar niður falla. 

Hann var látinn laus árið 2015 en enn er deilt um málið í Svíþjóð og eru ekki allir sannfærðir um sakleysi Thomas Quick. 

Allir virðast þó nokkuð sammála um að annað eins klúður hjá lögreglu megi aldrei endurtaka sig. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 2 dögum

Trúarleiðtogi ætlaði að kvænast dóttur sinni -„Guð vildi lagfæra líkama þeirra og setja meyjarhaftið aftur á sinn stað“

Trúarleiðtogi ætlaði að kvænast dóttur sinni -„Guð vildi lagfæra líkama þeirra og setja meyjarhaftið aftur á sinn stað“
Pressan
Fyrir 2 dögum

Kirstie Alley er látin

Kirstie Alley er látin
Pressan
Fyrir 4 dögum

Elon Musk óttast að vera ráðinn af dögum – „Það er ekki svo erfitt að drepa einhvern ef maður vill það“

Elon Musk óttast að vera ráðinn af dögum – „Það er ekki svo erfitt að drepa einhvern ef maður vill það“
Pressan
Fyrir 4 dögum

Flugferðin breyttist í algjöra martröð – Juliane hrapaði úr 3,2 km hæð og lifði af

Flugferðin breyttist í algjöra martröð – Juliane hrapaði úr 3,2 km hæð og lifði af