Tónlistarsmekkur manna er misjafn og þótt að Britney Spears sé með vinsælustu poppstjörnum allra tíma eru þeir til sem hreinlega ekki þola tónlist hennar.
Til að mynda sómalskir sjóræningjar. Og það er eitthvað sem breski sjóherinn hefur nýtt sér.
Sjórán eru gríðarlegt vandamál úti við strendur Afríku, sérstaklega eru sómalskir skeinuhættir. Þeir sigla að skipum, oft flutningaskipum en einnig minni skipum á við snekkjum, taka áhöfn í gíslingu og sigla viðkomandi fleyi í örugga höfn þar sem lögregluyfirvöld líta undan. Gegn greiðslu að sjálfsögðu. Fara ræningjarnir síðan fram á himinháar upphæðir í lausnargjald fyrir skip, farm og mannskap.
Vandamálið er orðið slíkt að breski kaupskipaflotinn setti saman aðgerðarhóp til að finna út bestu leiðirnar til að forðast sjórán. Liðsforinginn Rachel Owens, sem leiðir hópinn, er öryggissérfræðingur sem meðal annars ráðleggur skipstjórnarmönnum flutningaskipa sem sigla um þessar slóðir.
Og þótt að besta ráðið sé að sigla farþegaskipum í fylgd herskipa laumar Owens á öðru, og óvenjulegra ráði: Að spila tónlist Britney Spears í botni á meðan siglt um um hættulegustu hafsvæðin við austurströnd Afríku.
Í viðtali sem tekið var við Owens sagði hún sómalska sjóræningja ekki þola vestræna tónlist, klæðaburð og menningu og í lögum á við ...Baby One More Time sameinist allt sem þeim er hvað verst við. Því sé búið að koma fyrir öflugu hátalarakerfi í fjölda farþegaskipa sem eru tilbúnir með spilunarlista Britney um leið og sjóræningjar sjást nálgast. Er þá allt sett í botn, og merkilegt nokk, þá snúa þeir oftar en ekki við.